Forsýningarmynd komin á DVD – Shutter Island

Það er alltaf ánægjulegt að sjá góðar myndir koma út á DVD, og þá sérstaklega myndir sem við hjá Kvikmyndir.is höfum forsýnt, en við leggjum mikla áherslu á að velja GÓÐAR myndir til að forsýna.

Þessi frétt er skrifuð í tilefni af útkomu Shutter Island á DVD og Blu-Ray, en við forsýndum þá mynd einmitt snemma á þessu ári, og mælum því með henni.

Í fréttatilkynningu frá SAM-Myndum segir eftirfarandi um myndina: „Spennutryllirinn Shutter Island er nýjasta mynd Martins Scorsese og skartar hún Leonardo DiCaprio, Ben Kingsley og Mark Ruffalo í aðalhlutverkum.
Gerist myndin árið 1954 og segir frá hinum unga og upprennandi lögreglumanni Teddy Daniels (DiCaprio), sem fær hið erfiða verkefni að rannsaka hvarf sjúklings frá Ashcliffe-geðspítalanum, sem er staðsettur á Shutter-eyju rétt hjá Boston. Hefur hann sjálfur verið að ýta á eftir því að fá einhvers konar verkefni á eyjunni af persónulegum ástæðum, en hann hefur ekki verið lengi að rannsaka mannshvarfið þegar atburðir í kringum hann fara að taka á sig afar dularfulla mynd. Starfsaðferðir læknanna er hægt að skilgreina sem allt frá ósiðlegum til ólöglegra og fer Teddy brátt að gruna þá um græsku í málinu. Ekki hjálpar það til að þeir virðast mjög tregir til að leyfa honum að rannsaka málið eins ítarlega og hann vildi.
Þegar fellibylur lokar á öll samskipti milli eyjunnar og meginlandsins tekur mannshverfið á sig enn undarlegri og grunsamlegri mynd og ekki líður á löngu áður en Teddy er farinn að efast um allt í kringum sig, minni sitt, félaga sinn og jafnvel eigin geðheilsu.“ Svo mörg voru þau orð.

Í tilkynningunni fylgdu með ýmsir áhugaverðir punktar um myndina sem fá hér að fljóta með:

– Þetta er í fjórða sinn sem Leonardo DiCaprio
og Martin Scorsese vinna saman, en áður höfðu þeir gert Gangs of New York, The Aviator og The Departed.
– Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Dennis Lehane frá 2003.

– Upphaflega átti Wolfgang Petersen að leikstýra myndinni, en hann vildi breyta of miklu úr bókinni fyrir smekk framleiðenda.

– Alls hafa leikarar og leikstjóri myndarinnar unnið 2 Óskarsverðlaun og 6 Golden Globe-verðlaun, auk þess að hafa hlotið 17 Óskarstilnefningar og 22 Golden Globe-tilnefningar til viðbótar.

– Ólíkt flestum öðrum myndum var engin tónlist samin sérstaklega fyrir hana, heldur var Robbie Robertson fenginn til að safna saman blöndu af sígildri og tónlist og tónlist úr spennumyndum frá sjötta áratugnum, til að gefa henni yfirbragð mun eldri myndar en hún er.

– DiCaprio hafði mikið að segja um hlutverkaval í myndinni, en hann og Scorsese völdu Mark Ruffalo í hlutverk Chucks í sameiningu. Áður höfðu þeir rætt við og íhugað Robert Downey Jr. og Josh Brolin í hlutverkið.

– Þegar Teddy er í álmu C heyrist einhver hvísla setningu „Stop me before I kill more.“ Er þetta líklega vísun í grunaða fjöldamorðingjann William Heirens, sem talinn er hafa myrt fjölda fólks í Chicago á fimmta áratugnum.

– Scorsese er einnig framleiðandi myndarinnar The Young Victoria, sem kemur á DVD í júlí.

AÐSÓKN
Bandaríkin:
128,0 milljónir dollara

Á heimsvísu:
294,6 milljónir dollara

DÓMAR
**** Kvikmyndir.is
**** Empire
**** Total Film
***,5 Roger Ebert
***,5 Boxoffice Magazine
***,5 Rolling Stone
***,5 The Hollywood Reporter
80/100 – IMDb.com (#232 á Topp 250)
67/100 – RottenTomatoes.com
63/100 – Metacritic.com