American Gods gerð að sjónvarpsþáttum


Playtone framleiðslufyrirtækið með Tom Hanks og Gary Goetzman í fararbroddi eru í viðræðum við sjónvarpsstöðina HBO um að gera sjónvarpsþætti upp úr frægri bók Neil Gaiman, American Gods.

Robert Richardson er fyrirhugaður handritshöfundur þáttanna, en Gaiman ku skrifa upphafsþáttinn með honum. Þeir Playtone menn hafa áður unnið vinsæla sjónvarpsþætti með HBO, líkt og Big Love, The Pacific og Band of Brothers.

Richardson er þekktur tökumaður og er þekktastur fyrir Shutter Island, Inglourious Basterds, Kill Bill, The Aviator og JFK. Það telst hinsvegar til tíðinda að hann hugi að handritagerð, en þetta mun vera hans fyrsta handrit. Hann verður reyndar ekki óstuddur við verkið þar sem Gaiman hyggst fylgja honum í gegnum söguna.

Neil Gaiman ætti að vera öllum kunnur, en hann á heiðurinn af meistarastykkjum líkt og Sandman-myndasögunum, Stardust, Coraline, Anansi Boys auk American Gods. Þá er Neil Jordan að kvikmynda verk hans The Graveyard Book.

American Gods er frá 2002 og vann bæði Stoker- og Hugo-verðlaunin. Hún segir frá stríði hefðbundinna guða frá fornri tíð, svo sem Ásum, við nýja guði tækninnar, fjölmiðlanna, frægðarmaskínunnar og dópsins. Sögumaður er fyrrum fangi að nafni Shadow. Hann slæst í för með atvinnusvikahrappnum Wednesday sem dregur hann inn í stríðið á leið sinni yfir Bandaríkin, en hann hyggst safna liðið fyrir stóra uppgjörið sem allir finna að er yfirvofandi.

Það verður ekki annað sagt en að verkefnið þyki ótrúlega spennandi og vonum við undirrituð að þessi epíska saga rati á skjái landsmanna, svo ekki sé minnst á bókahillur þeirra.

-Kolbrún Björt Sigfúsdóttir