Metaðsókn í átta ára sögu Bíó paradísar

Metaðsókn varð í Bíó Paradís nú um helgina, en samkvæmt tilkynningu frá bíóinu hefur aldrei verið tekið á móti fleiri gestum í einu í átta ára sögu bíósins.

Kvikmyndin Kler (Clergy) er í fjórða sæti aðsóknarlista bíóhúsanna og eins og bíóið segir þá  má áætla að 5% Pólverja á Íslandi hafi lagt leið sína í Bíó Paradís að sjá myndina um helgina.

„Kler (Clergy) er að slá öll aðsóknarmet í Evrópu, og allstaðar þar sem hún er sýnd. Það logar allt í deilum vegna myndarinnar, og eru Íslendingar jafnt sem Pólverjar á Íslandi mjög spenntir að sjá um hvað málið snýst.“

Þá segir í tilkynningunni að uppselt hafi verið á flestar sýningar helgarinnar, og til dæmis hafi verið „stappfullt“ á Mandy með Nicolas Cage, en hún var frumsýnd um helgina á sérstakri miðnætursýningu og „troðið“ var á 20 ára afmælissýningu The Big Lebowski á föstudagskvöld.

Þá segir að einnig hafi verið mikil stemning á heimildamynd Hjálmtýs Heiðdals, Bráðum verður bylting!