Megamind, sem fjallar um ofurskúrkinn Megamind sem sér ekki tilgang í lífinu eftir að hafa sigrað erkióvin sinn, og er með Brad Pitt og Will Ferrel m.a. í aðalhlutverkum, fór beint á topp bandaríska bióaðsóknarlistans um helgina, en tekjur myndarinnar námu 47,6 milljónum Bandaríkjadala. Due Date, grínmyndin með þeim Robert Downey Jr. og Zach Galifianakis, lenti í öðru sæti með 33,5 milljónir dala í tekjur, sem telst einnig harla gott.
For Colored Girls, eftir Tyler Perry, lenti í þriðja sætinu með 20,1 milljón dala í tekjur. Þar á eftir kom Bruce Willis myndin Red í fjórða sæti með 8,8 milljónir dala, sína fjórðu viku á lista, og í því fimmta var hin þrívíða útgáfa af Söginni, eða Saw 3D, sem fór úr toppsætinu alla leið niður í það fimmta, með 8,2 milljónir dala í innkomu um helgina, og 38,8 í heildina frá því hún var frumsýnd.
En þó að Jigsaw og félagar í Söginni séu ofar á aðsóknarlistanum en hrollurinn Paranormal Activity 2, þá hefur Paranormal Activity 2 vinninginn í heildartekjum, en myndin sú hefur rakað saman einum 77,2 milljónum dala á þremur vikum. Myndin í sjöunda sæti, Jackass, skýtur þeim þó báðum ref fyrir rass tekjulega séð, en myndin um heimskuleg uppátæki og glæfraatriði, er komin upp í rúmar 110 milljónir dala í heildartekjur.
Clint Eastwood myndin Hereafter seig niður í áttunda sætið með 4,1 milljón dala í aðgangseyri, og Secretariat, féll niður í níunda sætið. Í tíunda sætinu er svo hin stórgóða Feisbúkk mynd, The Social Network, sem er líklega þar með á leið útaf topp tíu listanum í næstu viku.