The Devil Inside vekur mikla athygli

Hrollvekjan The Devil Inside stal senunni vestanhafs um helgina en hún fór beint á toppinn yfir vinsælustu myndirnar í kvikmyndahúsum með 34,5 milljónir dollara í tekjur. Myndin hefur hlotið hroðalega dóma, 7% á RottenTomatoes.com, 4.4 á Internet Movie DataBase og F á CinemaScore. Gagnrýnendur eru á einu máli en almenningur virðist hafa haft gaman af henni.

Þessi gríðarlega stóra opnun vekur mikla athygli einkum vegna þess að þetta er þriðja stærsta opnun í Bandaríkjunum frá upphafi. Spár framleiðenda og útgefenda fyrir helgina gerðu ráð fyrir um helming aðsóknar en því sem reyndist vera raunin þegar upp var staðið. Hér er um að ræða eina öflugustu innkomu hryllingsmyndar á kvikmyndamarkaðinn síðan The Evil Dead kom út.

Myndin var gerð fyrir klink af leikstjóranum William Brent Bell sem telst reynslulaus í bransanum. Engir stórir leikarar eru í myndinni, en uppbygging myndarinnar telst vera afar formúlukennd. Í upphafi myndarinnar finnst myndband sem sýnir ferðalag konu sem fer til Ítalíu til þess að komast að meiri upplýsingum varðandi morð móður sinnar en myndir eins og Blair Witch og Rec (Quarantine) byggja á svipaðri formúlu.

Af hverju gekk myndinni þá svona vel ? Ljóst er að markaðsdeild Paramount hefur unnið þvílikt þrekvirki. Þeir fundu myndina þegar hún var í bígerð og gerðu samning við leikstjórann. Þegar myndin kom út gat almenningur ekki farið út úr húsi án þess að sjá grípandi veggmyndir og auglýsingar fyrir myndina. Þeim tókst að skapa mikið umtal á veraldarvefnum á kvikmyndaspjallborðum og Twitter.

Þegar myndir með lítið fjármagn slá í gegn er venjulega hægt að réttlæta árangurinn með þeirri staðreynd að myndin sé sterk á einhverja vegu, t.d. með sterkum leik, góðu handriti, öflugri leikstjórn eða hreinlega að um sé að ræða virkilega góða mynd þegar á heildina er litið. The Devil Inside fer öfuga leið. Hér bendir allt til þess að um sé að ræða klisjukennda og formúlukennda hryllingsmynd sem gerir ekkert nýtt en er virkilega vel markaðssett.

Það er athyglisvert að fylgjast með þeirri þróun sem hefur átt sér stað frá því að The Blair Witch Project kom út árið 1999. Liðnir eru tímar minni hryllingsmynda sem slá óvænt í gegn og tími mynda sem eru viljandi framleiddar fyrir lítinn pening en markaðssettar upp úr öllu valdi er genginn í garð (lesist: Paranormal Activity).

Þetta virkar allavega á mig, ég er farinn í bíó. Hvað finnst þér lesandi góður ?