Markmiðið að klippa burt kynjahallann

Mynd: Reykjavik.is

Sjötíu stelpur í 8. og 9. bekk spreyta sig á kvikmyndagerð í kvikmyndasmiðjunni Stelpur filma! sem nú stendur yfir á vegum RIFF í samstarfi við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Á meðal kennara á námskeiðinu eru Baltasar Kormákur leikstjóri, Valdís Óskarsdóttir klippari og Margrét Jónasdóttir framleiðandi.

Námskeiðið miðar að því að rétta af kynjahallann í kvikmyndagerð á Íslandi, eða klippa hann burt eins og segir á vef Reykjavíkurborgar. Margir samverkandi þættir gera það að verkum að stelpur eru ólíklegri til að prófa sig áfram í kvikmyndagerð og láta rödd sína heyrast.

Á námskeiðinu fá stelpurnar næði til að þroska hæfileika sína og mynda tengsl við kvenkyns fyrirmyndir. Jafnframt er lögð áhersla á að skapa öruggt rými fyrir stelpur til að opna á allar hugmyndir sínar og að allar hugmyndir og sköpun eigi rétt á sér. Engin er dæmd út frá frammistöðu, kynvitund, bakgrunni, uppruna, fjárhagslegri stöðu eða öðrum breytum. 

Stelpur filma! byggir á hugmyndafræði rokkbúðanna Stelpur rokka! sem stofnaðar voru 2012 og má segja að þeirra námskeið hafi slegið í gegn. Hugmyndafræðin byggir á að nánast eingöngu konur koma að námskeiðinu og er með því verið að skapa sem öruggasta rými sem kostur er fyrir stelpur að skapa og tjá sig.

Á Stelpur filma! er ekkert umburðarlyndi fyrir hvers kyns ofbeldi og fordómum og jafnframt er enginn dæmdur út frá frammistöðu, kynvitund, bakgrunni, uppruna, fjárhagslegri stöðu eða öðrum breytum. Á námskeiðinu ríkir mistakafrelsi þar sem litið er á mistök sem tækifæri til að læra að gera betur.