Leikstjóri Amy snýr sér að Maradona

Asif Kapadia, sem hefur leikstýrt heimildarmyndum um kappakstursmanninn Aryten Senna og tónlistarkonuna Amy Winehouse, ætlar næst að snúa sér að fótboltagoðsögninni Diego Armando Maradona. maradona

Myndin Maradona fjallar um argentíska kappann sem sumir telja besta knattspyrnumann allra tíma. Tíma hans hjá ítalska félaginu Napoli verður gerð góð skil og sýnt verður myndefni sem aldrei áður hefur komið fyrir augu almennings.

Kapadia hefur lengi verið aðdáandi Maradona og ætlaði að gera þessa mynd áður hann leikstýrði myndinni um Senna.

„Persónuleiki hans heillaði mig, snilli hans, hreinskilni, ástríða, skopskyn og hversu veiklundaður hann var,“ sagði leikstjórinn um hinn 55 ára Maradona við The Hollywood Reporter.

„Ég heillaðist af lífshlaupi hans. Hvert sem hann fór komu ótrúleg snilld og dramatík við sögu. Hann var leiðtogi, fór með liðin sín alla leið á toppinn en ferillinn hans fór einnig niður á við. Hann var alltaf litli náunginn að berjast við kerfið, á móti hinum ríku og valdamiklu og var tilbúinn að gera hvað sem er, með því að nota klókindi sín og gáfur, til að bera sigur úr býtum.“