Ég – eins og flestir aðrir 24 ára, forvitnir og hálfútlenskir karlmenn – tel mig hafa séð ýmislegt súrt um ævina, hvort sem mér líkar það betur eða verr. Það er ekki hægt annað en að segja að báðar Happy Feet-myndirnar séu á meðal þess undarlegasta í heiminum sem ég hef séð og umhugsunarlaust í flokki barna- og fjölskyldumynda.
Á yfirborðinu lítur þetta út eins og hvert annað barnaefni þar sem (tölvu)teiknuð dýr dansa og syngja popplög og býst maður ekki við neinu öðru en léttlyndu og jákvæðu frá slíku. Þrátt fyrir að fjalla um krúttlegar mörgæsir (og einhver steiktustu tónlistaratriði sem tölvur hafa búið til) eru báðar myndirnar stórskrítnar og með alvarlega klofinn persónuleika. Eina stundina eru þær mjúkar og meinlausar en niðurdrepandi og óvenjulega raunsæjar þá næstu. Þær enda kannski dúllulega en eru ekkert að spara þungu atriðin
þangað til.
Stundum er eins og vonbrigði séu móðurmál persónanna og oft kemur fyrir að þeim er skellt í svo grimmar aðstæður að þetta virkar minna eins og fjölskylduafþreying og meira eins og yfirdrifin lífsleikni fyrir börn. Földu trúarskilaboðin (sem gáfaða, fullorðna fólkið mun fatta) og samfélagsgagnrýnin er heldur ekki eitthvað sem ég myndi kalla eðlilegt í myndum
af þessari tegund.
Ég veit ekki alveg hvers vegna en syngjandi og dansandi mörgæsirnar í þessum myndum eru meira fráhrindandi en þær ættu að vera. Kannski eru lögin vitlaust valin eða kannski er kjánahrollurinn bara svona mikill að ímynda sér keisaramörgæsir syngja Boogie Wonderland, svo eitthvað sé nefnt. Fyrri Happy Feet-myndin er steikt, þunn, oft þunglyndisleg og býsna leiðinleg teiknimynd sem er í senn óaðfinnanleg í útliti. Happy Feet 2 er aðeins (en bara aðeins) jákvæðari og betri mynd og þar voru í kringum tvær tónlistarsenur sem komu þokkalega út. Orð fá því samt ekki lýst hversu súr sjón það er að sjá mörgæsir, rækjur og fílseli dansa og syngja Queen/Bowie-lagið Under Pressure.
Sagan er samt alveg jafn þunn í þessari mynd. Við erum að tala um algjöra beinagrind og það kæmi ekki á óvart ef jafnvel krakkarnir sæju í gegnum allar uppfyllingarnar. Sú stærsta tengist tveimur rækjum, sem talsettar eru af Brad Pitt og Matt Damon (af öllum mönnum!). Þessar litlu persónur koma bara og fara eins og pirrandi íkorninn í Ice Age-myndunum og þjóna sögu myndarinnar sama og ekkert, þótt það sé gerð tilraun til þess að gefa þeim mikilvægan tilgang á seinustu stundu. Annars er heill herfjöldi af þekktum nöfnum til staðar í þessari mynd, en samt þekkir maður varla sumar persónurnar í sundur og skilur enginn nokkurn skapaðan hlut eftir sig. Nema kannski Robin Williams, en oftar er miklu meira líf í honum.
Útlitslega er Happy Feet 2 hátt í fullkomin og er alltaf hægt að dást að grafíkinni þegar áhugi manns á innihaldinu (eða innihaldsleysinu) fer sígandi. Annars er myndin einstaklega skrítin á flesta vegu, alveg eins og við mátti búast, og ef ég væri krakki myndi ég ekki vita hvort ég ætti að taka á móti henni með opnum örmum eða vera hálffríkaður út.
(5/10)
Hvernig fannst þér Happy Feet 2?