Fyrstu kvikmyndirnar sem leikstjórinn Christoper Nolan bjó til kostuðu lítið fé á mælikvarða Hollywood. Following kostaði sex þúsund bandaríkjadali, eða 750 þúsund krónur, og Memento kostaði níu milljónir dala, eða jafnvirði um 1,1 milljarðs íslenskra króna.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, og Nolan hefur gert hverja rándýru stórmyndina á fætur annarri. Nú er von á þeirri næstu, Tenet, og fregnir berast af því frá Eistlandi að myndin muni kosta litlar 200 milljónir evra, eða um 28 milljarða íslenskra króna, og verða ein dýrasta mynd leikstjórans til þessa! Það er err.ee sem segir frá málinu.
Ástæðan fyrir því að eistnesk vefsíða er með fréttir af málinu er sú að Tenet verður kvikmynduð í Eistlandi, og fær þar talsverðar endurgreiðslur af framleiðslukostnaði, rétt eins og tíðkast hefur hér á landi þegar erlendar stórmyndir eru teknar hér upp.
Tenet verður þó ekki dýrasta mynd Nolan til þessa, því Batman myndin The Dark Knight Rises, kostaði rúman 31 milljarð króna, samkvæmt BoxOfficeMojo.
Af öðrum myndum leikstjórans er það að segja að The Prestige kostaði 40 milljónir dala, Inception og Interstellar kostuðu í kringum 160-165 milljónir dala og The Dark Knight 185 milljónir dala. Dunkirk, síðasta mynd Nolan, kostaði 100 milljónir dala.
Ekki er víst í hvað hann ætlar að eyða öllum þessum Tenet-peningum, en mögulega fá leikararnir eitthvað fyrir sinn snúð. Nú þegar eru komin að myndinni þau Robert Pattinson, sem leikur næsta Batman, BlacKkKlansman leikarinn John David Washington, Elizabeth Debicki úr Widows, Aaron Taylor-Johnson, Kenneth Branagh og Michael Caine, sem er tíður gestur í myndum Nolan.
Enn er ekkert vitað um söguþráð myndarinnar, en henni er lýst sem sögulegri spennumynd sem gerist í heimi alþjóðlegra njósna.
Tenet verður frumsýnd hér á landi og annars staðar í heiminum þann 17. júlí á næsta ári.