Kosning hafin um fyndnustu 48 stunda gamanmyndina

Alls voru á þriðja tug gamanmynda sendar inn í 48 stunda gamanmyndakeppnina sem Gamanmyndahátíð Flateyrar og Reykjavík Foto stóðu fyrir. Nú eru allar gamanmyndirnar í keppninni aðgengilegar á heimasíðu Gamanmyndahátíðar Flateyrar. Þar geta landsmenn notið þess að horfa á fjölbreyttar og skemmtilegar gamanmyndir með þemanu “Heppni / Óheppni” sem voru aðeins unnar á 48 klst.

Áhorfendum gefst einnig tækifæri á að kjósa um fyndnustu gamanmyndina og hlítur sigurvegarinn veglega Canon myndavél frá Reykjavík Foto. Allir þátttakendur fá einnig hátíðararmband á Gamanmyndahátíð Flateyrar sem verður haldin í fimmta sinn í ágúst á þessu ári.

Keppendur í 48 stunda gamanmyndakeppninni voru á öllum aldri og frá öllum landshlutum. Þar má bæði sjá unga krakka stíga sín fyrstu spor í kvikmyndagerð sem og reyndari kvikmyndagerðarmenn. Öll með það að markmiði að gera gamanmynd til að létta landanum á þessum furðulegu tímum.

„Þátttakan í keppninni var framar okkar björtustu væntingum og virkilega gaman að sjá hvað myndirnar eru fjölbreyttar og skemmtilegar þrátt fyrir að fylgja allar sama þemanu. Þá var einnig gaman að heyra sögurnar á bak við myndirnar þar sem heilu fjölskyldurnar gleymdu Covid um stund og eyddu helgi saman í gamanmyndagerð,“ segir Eyþór Jóvinsson, annar forsvarsmaður Gamanmyndahátíðarinnar í tilkynningu.

Kosningu um fyndunstu gamanmyndina líkur 20. apríl og verður sigurvegarinn krýndur í kjölfarið.

Hægt er að horfa og kjósa fyndnustu myndina HÉR.