Klovn: The Movie virðist ætla að verða vel tekið á Íslandi eins og í Danmörku, því myndin skellti sér beint í toppsæti aðsóknarlista helgarinnar nú um áramótin. Höfðu þeir Frank Hvam og Casper Christensen betur en Hollywood-myndirnar Little Fockers og TRON Legacy, sem og hinn íslenski Gauragangur, en þessar þrjár myndir voru allar frumsýndar um jólin. Dönsku hrakfallabálkarnir tældu yfir 4.200 manns í bíó fyrstu tvo daga ársins, en auk þess fóru tæplega 1.100 manns á myndina á forsýningum þann 30. desember.
Little Fockers náði öðru sætinu með um 2.700 áhorfendur og hafa áframhaldandi fjölskylduvandræði Bens Stiller og Roberts De Niro nú verið opinberuð 14.500 íslenskum áhorfendum, sem verður að teljast alveg hreint prýðileg uppskera. Á móti hafa um 9.000 manns alls séð tölvutryllinn TRON Legacy, þar af um 2.000 um nýliðna helgi, sem verður að teljast aðeins undir væntingum, miðað við þá miklu auglýsingaherferð sem lagt var upp í með þá mynd, þó ekki sé aðsóknin neitt til að skammast sín fyrir.
Gauragangur var svo í fjórða sæti um helgina með um 1.600 áhorfendur, en samanlagt hafa tæplega 5.700 séð myndina frá frumsýningu. Miðað við gríðarlega aðsókn á íslensku jólamyndina í fyrra, Bjarnfreðarson, sem náði tæpum 67.000 áhorfendum í bíó, og Astrópíu, fyrri mynd Gunnars Björn Guðmundssonar, sem náði yfir 40.000 áhorfendum, verður Gauragangur að taka sig allverulega á eigi myndin ekki að valda vonbrigðum í miðasölu.
Tvær aðrar myndir voru frumsýndar um helgina, en Devil, nýjasta hugarsmíð hins umdeilda M. Night Shyamalan (en leikstýrt af Dowdle-bræðrum) náði aðeins sjöunda sætinu með um 500 áhorfendur á meðan Somewhere, ný mynd frá Sofiu Coppola, fékk um 300 áhorfendur í bíó og endaði í níunda sæti yfir helgina.
Annars gerðust þau tíðindi í jólafrísvikunni að Harry Potter and the Deathly Hallows: Part I skellti sér yfir 40.000 áhorfenda múrinn og tryggði sig í sessi sem þriðja aðsóknarmesta myndin af þeim sem voru frumsýndar 2010, á eftir Toy Story 3 og Inception.
Svo minni ég bara á kosninguna fyrir Kvikmyndaverðlaunin. Við tilkynnum nokkur flott þátttökuverðlaun í vikunni…
-Erlingur Grétar