Við íslendingar höfum alltaf vanmetið hversu steiktan húmor við höfum, og það fer oftar en ekki framhjá íslenskri kvikmyndagerð sérstaklega. Að megnu til framleiðum við lítið annað en sorgmæddar bókaaðlaganir eða vælukenndar karakterstúdíur um fjölskyldukrísur. Einhver umtalaðasta íslenska bíómynd fyrr eða síðar hefur alltaf verið Sódóma Reykjavík, ekkert endilega útaf því að hún er ein af þeim fáu góðu gamanmyndum sem við höfum gert, heldur líka því hún er svo 100% íslensk og húmorinn vel í stíl við menninguna. Sú mynd var yndislega kjánaleg og ýkt að nærri öllu leyti, og slík þvæla hefur gengið vel upp í okkar gamanmyndum (lítið t.d. á Stellu í Orlofi eða Líf-myndirnar klassísku).
Astrópía kemur undarlega á óvart, og reynist hún vera nokkuð gott framlag til íslenskra gamanmynda. Myndin tekur sig aldrei alvarlega og býr til skemmtilegt andrúmsloft sem er ólíkt mestöllu öðru sem við höfum séð af innlendri kvikmyndagerð. Menningarhúmorinn er á sínum stað, en ef eitthvað þá eru það sérknnilegu persónur myndarinnar sem að halda henni uppi.
Söguþráðurinn er sömuleiðis skemmtilega ferskur og, þrátt fyrir ýmsar klisjur gengur hann ósköp vel upp. Það sem seldi söguna fyrir mér var sambandið sem þróaðist á milli Ragnhildar Steinunnar og Snorra Engilberts. Það var kannski pínu "mússí-mússí" (smá tilvísun í Fóstbræður) en einmitt í því öðlaðist myndin dálitla sál sem gerði hana talsvert viðkunnanlega, og þau tvö stóðu sig eins og hetjur. Steinn Ármann stal einnig sínum senum og var eflaust fyndnasti maðurinn á skjánum. Sveppi var alls ekki langt á eftir, sem er einkennilegt fyrir mig að segja þar sem ég hef sjaldan fílað manninn, en hér kom hann með yndislega lúðalegan karakter sem virtist ganga upp. Besta senan með honum er þegar hann mælir með hryllingsmyndum fyrir lítinn strák, með þau rök að maður pælir fullmikið í myndatöku, brellum og hljóði þegar maður eldist, og þ.a.l. nýtur maður þeirra ekki eins mikið. Sjúklega fyndið, og aulalega góður punktur. Pétur Jóhann var aftur á móti fullýktur og mjólkaði sitt nördahlutverk aðeins of mikið. Hvað á samt það að þýða að gefa honum geislasverð í fantasíuaheiminum ef hann á svo ekkert að nota það??
Stíll myndarinnar er þó að mörgu leyti stærsta klisjan, t.d. hvernig skipting á milli atriða sver sig við myndasögublað. Þetta kemur alls ekkert illa út, en maður fær alltaf þá tilfinningu að maður hafi oft séð þetta gert (t.d. get ég talið upp American Splendor eða jafnvel Svínasúpuna). Búningar og brellur koma ágætlega út miðað við þann standard sem myndin setur sér. Það er lítið um bardaga eða ofbeldi, sem er faktískt góður hlutur, enda engan veginn verið í takt við atburðarásina. Myndin gerir líka minna úr fantasíunni en auglýsingarnar gefa til kynna, og kom þetta allt talsvert betur út en ég gerði ráð fyrir. Leikstjórnin er sömuleiðis traust og markviss. Gunnar Björn Guðmundsson sér um að fókusa á helstu frammistöður og setur umgjörð í aftursætið. Það er aðallega stíllinn sem hefði mátt betur fínpússa, en frekar kýs ég að kvarta undan því heldur en vondum leik.
Þegar á heildina er litið virðist Astrópía hafa náð að taka mjög brenglaða hugmynd og láta hana. Hugmynd sem hefði eins léttilega getað feilað í erlendri kvikmynd. Styrkleikann er að finna í léttum tón og skemmtilegri framvindu. Svo er myndin við allra hæfi og ættu jafnvel íslenskir nördar að fá tvöfalda ánægju úr húmornum (Leroy Jenkins, einhver?). Ég hika ekki við að segja að þetta sé það ferskasta, og mögulega það fyndnasta, sem hefur komið frá okkur íslendingum síðan að Sódóma kom út.
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei