Ian Holm er látinn

Breski leik­ar­inn Sir Ian Holm er lát­inn, 88 ára að aldri. Þetta staðfestir umboðsmaður Holm í samtali við fréttamiðilinn Guardian, en að hans sögn lést leikarinn á spítala vegna veikinda í tengslum við Parkinsons sem hann hafði glímt við undanfarin ár.

Holm átti gífurlega flottan leikferil en var hvað þekktastur fyrir leik sinn sem Bilbo Baggins í Lord of the Rings-þríleiknum, sem Sam Mussabini í Chariots of Fire, þar sem hann hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna, og að ógleymdum Ash í Alien.

Á meðal fleiri kvikmynda sem Holm lék í með eftirminnilegum hætti eru Brazil, Big Night, The Sweet Hereafter, The Madness of King George, The Fifth Element, eXistenZ, The Day After Tomorrow og The Aviator. Síðasta hlutverk hans var sem Bilbo í myndinni The Hobbit: The Battle of Five Armies.