Hláturskast sem brást

Eftir að hafa séð trailerinn fyrir Grown Ups þá batt sá sem þetta skrifar nokkrar vonir við að myndin gæti kitlað hláturtaugarnar hressilega, enda fátt eins skemmtilegt og að hlægja eins og hross í bíó.

Tómas Valgeirsson dempar þessar vonir mínar um hlátursköst nokkuð með dómi sínum um myndina sem lesa má hér
Hann segir meðal annars að myndin sé eins og vídeóupptaka af þeim vinunum, Sandler og félögum, í sumarfríi með fjölskyldum sínum. „Grown Ups er hugsanlega metnaðarlausasta gamanmynd Sandlers/Happy Madison gengisins til þessa. Það gerist ekkert í henni, og svo reynir hún að réttlæta tilvist sína með því að moka ofan í okkur mjög fyrirsjáanlegan og nokkuð þvingaðan boðskap um vináttu og þroska. Frekar skondið miðað við hvað húmorinn í þessari mynd er barnalegur, og meira að segja eftir að mórallinn kemur fram heldur myndin áfram að vera þannig.“

Jæja, svona fór um sjóferð þá. Fjórar stjörnur hljóðar dómurinn upp á.

Heimir Bjarnason fjallar í nýrri gagnrýni um aðra mynd, sem flestir eru sammála um að sé hlægileg út í gegn. The Hangover.

Heimir er þó ekkert yfir sig hrifinn, þó hann hafi greinilega hlegið eitthvað. „Þessi mynd er perfekt myndin til þess að sjá með vinum og alveg fín en ekki eins góð og allir segja. Alveg eins og Avatar (sem er góð), er þessi mynd mjög ofmetinn og jafnvel gagnrýnendur gáfu henni mjög góða dóma sem ég skil ekki,“ segir Heimir og dúndrar 7 stjörnum á ræmuna.

Sigurjón Eðvarðsson býður best af þeim þremenningum í sínum dómi, eða níu stjörnur, en hann fjallar í glænýrri umfjöllun um þá gömlu og þrælgóðu gamanmynd Revenge of the Nerds.
Þessi mynd er frábær til áhorfs og ég hvet alla til að líta á hana ef þið rennið augum yfir hana. Hún er óborganlega fyndin, flippuð, kynþokkafull, vel leikin, virkilega skemmtileg og best af öllu, ekki tilgangslaus. Ekki láta þessa fara framhjá þér,“ segir Sigurjón,og hann er ekki að djóka….