Heillaðist mjög ungur af kvikmyndum sem fóru yfir strikið

Elvar Gunnarsson, kvikmyndagerðarmaður með meiru, hefur síðastliðin ár unnið með hópi ungs kvikmyndagerðarfólks að því að klára hrollvekjuna It Hatched, sem gengur einnig undir heitinu Mara. Myndin er sögð vera óður til horfinna tíma í hrollvekjugeiranum og í ætt við hrollvekjur sem gerðar voru seint á áttunda áratugnum. Telur þá Elvar upp kvikmyndir eins og Rosemary’s Baby og The Shining sem gífurlegan innblástur.

Við fyrstu sýn fagna þau kyrrðinni og horfa fram á við bjartsýnum augum, en dag einn finna þau djúpa holu á kjallaragólfinu og þar undir býr forn vættur sem aðeins hefur heyrst um í þjóðsögum. Konan gildnar skyndilega og virðist hafa orðið ólétt á svipstundu. Í kjölfarið verpir konan eggi eina nóttina og hægist ekki mikið á atburðarásinni eftir það. Auk Vivian fer Gunnar Kristinsson með annað aðalhlutverkið en einnig bregður fyrir þekktum leikurum á borð við Halldóru Geirharðsdóttur, Þór Túliníus, Björn Jörund og Halldór Gylfason.

Skjáskot: Backgammon (Hjá mér)

Elvar er mikill kvikmyndaunnandi og hefur verið það frá ungum aldri. Í ítarlegu viðtali við DV undirstrikar Elvar mikilvægi svokallaðra flokkamynda í íslenskri kvikmyndasögu og segir þær hafa mótað hann gífurlega, bæði á uppeldisárunum og síðar um ævina.

„Fyrsta kvikmyndin sem hræddi mig“

„Þeir sem þorðu að gera flokkamyndir á þessum tíma í íslenskri kvikmyndagerð, þeir skammast sín fyrir þær oftar en ekki og það skil ég ekki,“ segir hann. „Ég heillaðist mjög ungur af kvikmyndum sem fóru yfir strikið og gerðu hluti sem enginn þorði að gera; hvort sem það eru kvikmyndir eins og Blóðrautt sólarlag, Okkar á milli eða Morðsaga. Ég var meira að segja það mikill lúði að ég fór heim til Reynis Oddssonar, sem leikstýrði Morðsögu, og talaði við hann um myndina.

Ég átti bara kvöldstund heima hjá honum og konunni hans og var svolítið mikið í þessu. Ég hafði gaman af því að yfirheyra fullt af liði sem mér þótti áhugavert. Ég var ekki bara aðdáandi þess efnis sem menn eins og Reynir gerðu, heldur líka að þeir þorðu að gera það.“

Elvar rifjar upp gullaldarskeið RÚV þegar ýmiss konar sjónvarpsmyndir réðu þar ríkjum og voru oft stórfurðulegar og truflandi, en hrollvekjur voru sérlega algengar á níunda áratug síðustu aldar. Elvar vísar í sjónvarpsmynd Egils Eðvarðssonar, Steinbarn, sem hafði gífurleg áhrif á hann. „Sjónvarpsmyndir RÚV eru einhverjar skemmtilegustu myndir kvikmyndasögunnar á Íslandi, en það hafa svo fáir séð þær í dag því aðgengi að þeim er nánast farið. En Steinbarn er fyrsta kvikmyndin sem hræddi mig og í ýmsum verkum mínum hef ég verið að sækja í þau áhrif sem sú kvikmynd hafði á mig.“