Grænmetisæta verður mannæta

Mannætumyndin Raw vakti mikla athygli á kvikmyndahátíðunum í Cannes og Toronto í fyrra, og verður einnig sýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum nú í janúar.

Myndin er fyrsta mynd leikstjórans Julia Ducournau og verður frumsýnd í almennum sýningum í Bandaríkjunum 10. mars nk.

raw-1-620x386

Nú hefur fyrsta stikla úr myndinni verið birt, en um er að ræða svokallaða red band stiklu, bannaða börnum.

Söguþráður myndarinnar er á þá leið að allir í fjölskyldu Justine eru dýralæknar, og grænmetisætur. Hún er sjálf efnilegur nemandi og skráir sig í dýralæknaskóla strax þegar hún er sextán ára gömul. Þar kynnist hún heimi sem ýmislegt er athugavert við siðferðislega, og margt er grimmilegt og tælandi innan veggja skólans. Justine vill aðlagast skólalífinu, og ákveður að bregða útaf vananum og leggja sér kjöt til munns í fyrsta skipti. Í kjölfarið upplifir hún hræðilegar og óvæntar afleiðingar gjörða sinna, þegar hennar sanna sjálf brýst upp á yfirborðið.

Kíktu á blóðuga stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan:

raw-poster-620x919