Endurgerðir geta oftar en ekki verið verkfæri djöfulsins eða tímasóun á hæsta stigi, en í fáeinum tilfellum koma út slíkar myndir sem gera sér grein fyrir göllum fyrirmynda sinna og betrumbæta þær eftir bestu getu.
Eitt af því fáa góða sem kom út úr spennumyndinni Inhale var að hann Baltasar okkar Kormákur var farinn að læra allt öðruvísi kvikmyndagerð en áður. Leikstjórinn sem þá hafði einungis gert kaldar dramamyndir var farinn að læra hvernig átti að taka upp hráan spennuþriller og það nýtist honum glæsilega í Contraband. Ekki einungis hefur hann bætt sig aðeins, heldur nýtir hann sér það sem hann hefur lært með því að taka 80 mínútna íslenska bíómynd sem Óskar Jónasson gerði hörkufína, og gera hana lengri, svalari og talsvert betri á amerískum markaði með aðstoð handritshöfundarins Aarons Guzikowski. Þetta þýðir að myndinni er skellt í glorsoltinn minnihlutahóp sem einni af örfáum endurgerðum þar sem hlutirnir eru rétt gerðir.
Reykjavík-Rotterdam er ein af kannski tveimur íslenskum spennumyndum sem ég „keypti“ frá upphafi til enda og hélt hún óspilltri athygli minni allan tímann þrátt fyrir ýmsa (handrits)galla. Contraband er ekki hundrað prósent afrit en þetta er meira eða minna nákvæmlega sama myndin, bara betri, þökk sé meira fjármagni, nokkrum jákvæðum sögubreytingum, einbeittari leikstjórn, flottari stíl, betra flæði og Mark Wahlberg, sem er margfalt meiri töffari í aðalhlutverkinu en Balti karlinn (en á móti er Balti mun sterkari spennumyndaleikstjóri en Skari skrípó).
Það sjá það allir strax að þetta er engin Óskarsmynd. Við skulum þá bara orða þetta þannig að þetta er ekki hágæðaefni, skrifað af mikilli hnyttni fyrir gáfaða fólkið, heldur bara skothelt afþreyingarbíó sem hefur þann styrkleika að soga mann til sín með persónum sínum og aðstæðum. Reyndar ristir persónusköpunin ekki djúpt, en hún þarf það heldur ekkert í spennumynd sem hefur svona öfluga keyrslu og nokkuð háan „sjitt-hvað-þetta-er-töff“-fíling. Það sem skiptir mestu máli er að maður heldur með góðu körlunum og vill sjá eitthvað slæmt koma fyrir þá vondu. Upprunalega myndin gaf manni þessa tilfinningu en hún er miklu sterkari í Contraband.
Wahlberg er viðkunnalegur, harður og markviss í hlutverkinu sínu og fer Balti ofsalega vel með leikarana sína. Hann sér til þess að þeir slái ekki feilnótu og toppi forvera sína í leiðinni. Ingvar E. Sigurðsson og Jóhannes Haukur voru til dæmis hörkugóðir en Ben Foster og Giovanni Ribisi eru mun trúverðugri og beittari. Eini leikarinn sem sat ekki vel í mér var Kate Beckinsale. En eins fín (og logandi heit) leikkona og hún getur verið, þá gerir persóna hennar ofsalega lítið þótt hún sé mikilvæg. Betra hefði verið að fá einhverja óþekktari að mínu mati því nærvera þekktrar leikkonu eins og Kate gerir það að verkum að ýmsir gætu gert meiri væntingar til hennar. Það gefur líka hlutlausum augum strax hávært merki um það hversu mikilvæg eiginkona Wahlbergs er í myndinni þegar þekkt Hollywood-andlit leikur hana.
Balti hefur farið langan veg í verkum sínum á rúmum áratug síðan hann gerði 101 Reykjavík. Contraband yfirstígur ýmsa galla sína með því að vera nákvæmlega það sem hún á að vera og vill vera. Kannski erum við Íslendingar ógurlega mistækir í kvikmyndagerðinni (þótt áberandi merki um vönduð vinnubrögð séu sýnd) en í versta falli verðum við bara að sætta okkur við það að geta gefið erlendum verkefnum efni sem hægt er að móta eitthvað betur úr annars staðar.
Ég er forvitinn að vita hvernig ég hefði tekið í þessa mynd án þess að vera í aðstöðu til að bera hana saman við þá upprunalegu. Að sjá þessa sömu sögu í bandarískri bíómynd fær mann til að gera sér enn frekar grein fyrir því hvað atburðarásin er langsótt og heiladauð á köflum. En takið samt allavega séns á Contraband. Þó að hún líti út eins og B-glæpamynd sem ætti að fara beint á vídeó, þá nást markmiðin með látum og brennandi áhuga.
Há sjöa skal það vera!