Geimverurnar í District 9 beint á toppinn

District 9, ódýr
geimverumynd sem gerist í Suður Afríku með alls óþekktu leikaraliði, skaust
beint í toppsætið á aðsóknarlistanumí Bandaríkjunum um helgina, en tekjur
myndarinnar þessa einu helgi voru meiri en allur kostnaðurinn við gerð
myndarinnar.

Myndin, sem fjallar
um geimverur sem eru strandaglópar í Jóhannesarborg, græddi 37 milljónir dala
um helgina í bandarískum bíóhúsum.

Sony
fyrirtækið,sem dreifir myndinni, sagði í frétt Reuters að kostnaðurinn við að gera myndina hefði
verið 30 milljónir Bandaríkjadala, sem er mjög hóflegt á Hollywood mælikvarða.

Myndin naut þess í aðsókn að hafa fengið góða dóma og góða kynningu á Comic
Con hátíðinni  sem er nýlega lokið. Auk þess var myndin framleidd af ekki ómerkari manni en leikstjóranum Peter Jackson sem þekktastur er fyrir The Lord of the Rings þríleikinn og King Kong.

Myndinni var leikstýrt af Suður-Afríkumanninum Neill Blomkamp sem skrifaði einnig
handritið ásamt öðrum. Þetta er fyrsta mynd Blomkamp, sem hingað til hefur gert
auglýsingamyndir.

Aðalhlutverkið í myndinni leikur nýliðinn Sharlto Copley. Hann leikur  skrifstofublók sem stendur fyrir því að reka
burtu óvelkomnar geimverur sem eru strandaðar í einu af fátækrahverfum Jóhannesarborgar,
District 9,  þar sem þær hafa verið
fastar síðan geimskipið þeirra bilaði yfir borginni 20 árum fyrr. Átökin þróast fjótt út í blóðugan bardaga þegar mennirnir reyna að komast
yfir háþráðan vopnabúnað geimbúanna. Sagan er unnin upp úr stuttmyndinni Alive
in Joburg, sem Copley framleiddi með Blomkamp sem leikstjóra.

„District 9“ er þriðja ódýra Sony myndin í röð í sumar sem notið
hefur velgengni, en áður hafa verið sýndar myndirnar „Julie & Julia,“ sem tók inn 44 milljónir dala eftir tvær vikur í sýningum, og rómantíska
gamanmyndin The Ugly Truth með 77,5 milljónir í tekjur eftir
fjórar vikur í sýningum. Allar þrjár myndirnar hafa kostað minna en 49 milljónir dala í framleiðslu.

Toppmyndin frá síðustu helgi í Bandaríkjunum, G.I. Joe: The Rise of Cobra,
féll þessa helgina niður í annað sætið á aðsóknarlistanum.