Náðu í appið
Bönnuð innan 14 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

The Ugly Truth 2009

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 18. september 2009

The battle of the sexes is on.

97 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 14% Critics
The Movies database einkunn 28
/100

Katherine Heigl leikur framleiðanda morgunþáttar sem er að dvína í vinsældum. Til að bjarga áhorfi ráða þau karlrembuna Gerald Butler sem talar MJÖG opinskátt um samskipti kynjanna. Hann tekur svo að sér að kenna Heigl hvað það er sem kveikir í karlmönnum svo henni takist einhvern tímann að ganga út…en hvort það virkar er hinsvegar allt annað mál

Aðalleikarar

Meðalgróf vídeómynd
Rómantískar gamanmyndir eru ekkert ólíkar stórum, háværum Holluwood-myndum að því leyti að markhópurinn lætur aldrei slæma dóma koma í veg fyrir að hann sjái þær. Gagnrýnendur eru merkilega gagnslausir þegar kemur að svona myndum, en það er ekkert að því svosem. Þessi geiri er líka einn af þeim fáu þar sem áhorfendur vilja bara alls ekki láta koma sér á óvart. Klisjuformúlan víðfræga er þarna af ástæðu; stelpum finnst hún skemmtileg, og þær verða vægast sagt brjálaðar ef parið á skjánum endar ekki saman rétt undir lokin. The Ugly Truth hefur fengið aðeins of harðan skell frá gagnrýnendum að mínu mati. Hún er til dæmis með 15% á RottenTomatoes (með 3.8. í meðaleinkunn) þegar þessi texti er skrifaður. Hvílíkt rugl! Myndin er kannski ekkert svakalega góð, eða það góð til að byrja með, en hún gegnir hlutverki sínu ágætlega og er m.a.s. talsvert fyndnari að mínu mati heldur en Ghosts of Girlfriends Past eða The Proposal, sem báðar fengu aðeins betri dóma. Þetta er aðeins mitt mat, að sjálfsögðu, en ég á erfitt með að trúa að það sé ekki EINHVER sammála því...

Mér finnst einkennandi við þessa mynd hvernig hún skiptist á milli þess að vera tiltölulega gróf og afskaplega saklaus. Það er eins og leikstjórinn (Robert Luketic - sem er vel lærður í þessum geira) eða handritshöfundarnir hafi ekki náð að ákveða sig hvort hún ætti að vera. Persónulega hefði ég viljað sjá hana grófari, því sá húmor virkar best. Allir aðrir brandarar eru annaðhvort lélegir eða svo hrikalega góðir með sig að manni langar nánast til að horfa undan.

Katherine Heigl er aftur orðin skemmtileg eftir að hafa hrasað smávegis með því að gera 27 Dresses, mynd sem ég var alls ekki hrifinn af. Stundum geta rómantískar gamanmyndir orðið *OF* dæmigerðar, og sú mynd var akkúrat þannig. Engu að síður fannst mér Heigl mjög hress og ánægjuleg í þessari mynd, þótt ég eigi enn eftir að sjá hana leika eitthvað annað en sömu persónuna alltaf (Knocked Up tel ég reyndar með). Síðan bjóst ég við að Gerard Butler (sem hefur greinilega bætt á sig nokkur kíló!) myndi stela öllum atriðum sínum, sem hann gerði... svona eiginlega. Ég veit nú ekki hvað hinn áður ofursvali Leonidas var að spá en þessi ameríski hreimur sem hann setur upp í þessari mynd var alveg gjörsamlega út í hött á tímabili. Fyrir utan það að vera áberandi feikaður þá var hann hér um bil truflandi og átti maður stundum erfitt að fókusa á karakterinn sjálfan. Þetta er næstum því eins og þegar maður heyrði Jack Davenport tala með glötuðum kanahreim í Swingtown-þáttunum. Semsagt, eitthvað hljómar bara ekki rétt! Betra hefði verið að leyfa Butler bara að halda sig við skoska hreiminn. Það hefði líka sennilega gert persónuna meira sjarmerandi.

The Ugly Truth þarf á svo lítilli krufningu að halda. Þegar uppi er staðið er aðeins þrennt sem skiptir máli sem ég hef að segja; Fannst mér hún fyndin? Já, stundum! Var hún dæmigerð? Mjög svo. Tel ég líklegt að hún eigi eftir að skemmta markhópnum sínum? Pottþétt! En samt, þrátt fyrir ágætis skammtímaafþreyingu er þetta mynd sem hverfur svo fljótt úr minninu að um leið og þú labbar út úr salnum munt þú velta fyrir þér hvenær þú fórst seinast í bíó með makanum. Ég smelli að lokum sexunni á myndina og hvet endilega áhugasömum að kíkja á hana, en bara ef það er ekkert annað af viti í boði.

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn