Það er mér algjör ráðgáta hvernig þessi Jim Levenstein nær að vera svona óskiljanlega misheppnaður einstaklingur, þar sem aðstæðum tekst alltaf að versna í kringum hann og verða sífellt neyðarlegri. Honum er bara aldrei ætlað að stunda eðlilega sjálfsfróun eða eiga vesenlaust kynlíf. Sennilega er það vegna þess að einhvers konar grimmdarleg bölvun hvílir á typpinu hans, því þessi karakter setur heimsmet í vandræðalegheitum sem koma unglingagreddu við. En þrátt fyrir stöðuga niðurlægingu er pínu erfitt að þykja ekki svolítið vænt um þetta gallaða gimp. Og það sama á eiginlega við um flestallar persónurnar.
Sama hvort útkoman á American Reunion hefði verið góð eða slæm þá er ég mjög feginn að hún hafi verið gerð. Það var algjörlega skrefið í réttu áttina að smala öllum (já, öllum!) upprunalegu persónunum saman til að minnast gömlu góðu daganna og horfa í framtíðina. Þetta spilar mikið með nostalgíuna og gefur persónunum betra tækifæri til þess að loka sögunum sínum á fullnægjandi máta. Hugmyndin að nýta rauntímann og sýna persónurnar 13 árum eldri heldur en þær voru í fyrstu myndinni er líka sniðug, lógísk og langbesta leiðin til að reyna að laga handónýtt vörumerki. Þessi mynd er semsagt eitthvað sem ÞURFTI að gerast.
Reyndar var gamli þríleikurinn í fínasta lagi (þ.e. American Pie 1, 2 og Wedding) en þessar skelfilegu spin-off myndir sem fóru beint á DVD eyðilögðu nafnið fyrir mér. Gredduhúmorinn er kannski þekktasta einkenni myndanna en í mínum huga hafa persónurnar í langflestum tilfellum verið sterkasti aðdrátturinn. Húmorinn verður einhvern veginn betri því manni finnst gaman að hlæja að (og með) þeim sem manni líkar vel við. Þegar gróf gamanmynd snýst í kringum leiðinlegt eða óathyglisvert fólk þá er áhorfið sama og tilgangslaust, nema húmorinn sé auðvitað meiriháttar, en það var langt frá því að vera tilfellið í þessum hræðilegu spin-off myndum.
Fyrsta American Pie-myndin er eiginlega frábær. Ekki fullkomin, en persónurnar náðu til manns og myndin fær mig ennþá til að hlæja eins og geldur api, alveg sama hversu oft ég hef séð hana. Önnur myndin var plottlaus framlenging sem náði alls ekki að vera jafnfyndin eða fersk og sú fyrsta. Sem betur fer hélst athyglin á persónutengslunum og það bjargaði henni alveg. Þriðja myndin náði reyndar að hrista aðeins upp í formúlunni og mér fannst hún vera tussufyndin þrátt fyrir að skera burt nokkrar persónur sem skiptu mér máli. Ég jafnaði mig þó fljótt á því, og American Wedding gekk aðallega út á það að ljúka þeim persónuörkum sem var ekki búið að loka í mynd nr. 2.
American Reunion er svakalegt nostalgíurúnk (elska þetta orð), með endalausum tilvísunum og tilvitnunum í brandara úr hinum myndunum og sena sem spegla þær út og inn. Tónlistin sleppur heldur ekki undan og eru þess vegna mörg lög í þessari sem vísa beint í fyrri myndirnar, oftast af góðri ástæðu. Allt þetta er samt í lagi, því myndin á að vera nostalgíurúnk. Sagan gengur einmitt út á fortíðarþráina og svo lengi sem myndinni tekst að negla það sem skiptir mestu máli, þá er ég fullkomlega sáttur. Ef hún er meinfyndin, þá er áhorfið vafalaust þess virði, og ef henni tekst aðeins að bræða á manni hjartað með fáeinum persónumómentum (vegna þess að maður getur ekki annað en elskað þessa karaktera stundum), þá er hún þegar orðin miklu betri heldur en framhaldsmyndirnar. Og ég vil hiklaust meina það að þessi mynd sé ekkert síðri en sú fyrsta. Hún er eiginlega frábær.
Uppskriftin er enn sú sama og aðstæður hætta aldrei að vera pínu þvingaðar, en Reunion hefur sömu kosti og fyrsta myndin. Hún rúllar mjúklega í gegn án þess að tapa áhuga manns, sýnir fólkinu á skjánum réttu umhyggjuna, inniheldur falleg brjóst og er umfram allt svakalega, svakalega fyndin, án þess að maður þurfi að bíða lengi á milli góðu djókanna. Sum atriðin eru meira að segja svo dásamlega hlægileg að ég ráðlegg fólki (sérstaklega aðdáendum) að fara sparlega með nammiátið og gosskammtinn. Þessu verður öllu frussað út á einhverjum tímapunkti. Leikararnir eru líka flestir í rétta gírnum, en það er kannski ekki við öðru að búast þar sem fæstir þeirra hafa gert eitthvað af viti með ferilinn síðan þeir kvöddu þessa seríu seinast.
Jason Biggs veit hvað hann er að gera. Hann þekkir þetta manna bestur og fer létt með það að misþyrma á sér tittlingnum með kómískum árangri. Alyson Hannigan virðist einnig hafa ekki gleymt neinu, og ekki heldur þeir Eddie Kaye Thomas (sem hefur alltaf verið í soddan uppáhaldi hjá mér, eða Finch, nánar til tekið), Thomas Ian Nicholas eða Seann William Scott sem einn uppáhalds skíthællinn okkar allra. Fólk elskar Stifler og hatar Stifler, elskar að hata hann eða hatar að elska hann. Alveg sama hvar þín skoðun liggur, þá væri þetta ekki American Pie-mynd án hans. Eugene Levy fær líka loksins að vera aðeins meiri þátttakandi í sögunni, og ég efast um að nokkur maður sé ósáttur með það.
Svo koma þeir sem voru ekki seinast í þriðju myndinni, eins og Chris Klein, Mena Suvari, Tara Reid og margir, margir aðrir. Hver einasti leikari virðist hafa mætt á settið og hent sér áreynslulaust í sitt hlutverk, svipað og að lauma sér í gamla, þægilega inniskó. Ég verð þó að játa að myndin er stundum alltof mikið að troða inn gömlum aukakarakterum, bara til þess að leyfa þeim að vera með. Stundum smellur það þokkalega við atriðin, en svo eru önnur tilfelli þar sem myndin er bara að segja: „Hey, sjáðu hver er þarna!“
Að vísu hefur Reunion líka nákvæmlega sömu galla og fyrsta myndin. Upplýsingum í handritinu er oft komið til skila með tilgerðarlegum og bíómyndalegum hætti. Dramað er líka stundum eins og eitthvað tekið úr melódramatískum sjónvarpsþætti fyrir gelgjur, þó ég verði nú að játa að senurnar með þeim Heather (Suvari) og Oz (Kline) gera mig að hálfgerðri væluskjóðu stundum. Þau eru enn ofsalega krúttleg saman. Flestir áhorfendur vita nákvæmlega hvernig þeirra plott endar í þessari mynd, en þeim er samt líklegast skítsama, því það geislar af þessu pari sama hvað línurnar eru stundum stífar.
Aftur á móti hef ég aldrei getað sagt það sama um Vicky (Reid) og Kevin (Nicholas). Þeirra söguþráður var hundleiðinlegur í fyrstu myndinni (þó ég hafi alveg fattað tilganginn með honum) og hann er ennþá leiðinlegri hér. Nicholas er fínn leikari en ég vil gjarnan fá að vita úr hvaða ræsi aðstandendur fundu Töru Reid, því orðið „kókmella“ virðist stafa sig sjálft út í návist hennar. Botninum er svo sannarlega náð í lífinu þegar einhver manneskja er í aðstöðu til þess að öfunda Lindsay Lohan. Reid hefur ekkert skánað sem leikkona og ég held að handritið hefði frekar bara átt að gefa henni cameo-rullu eða afsaka fjarveru hennar með snjöllum hætti. Ég skil alveg tilganginn með að gefa henni stórt hlutverk hér, því allt þarf að endurspegla frummyndina, en myndin í heild sinni versnar bara fyrir vikið.
American Reunion er ekkert að finna upp hjólið, og reyndar er hún aðeins mildari í grófu bröndurunum en ég átti von á, en ekkert ófyndnari þrátt fyrir það. Eftirminnilegustu partarnir í þessum myndum eru langoftast í kringum miðbikið þegar allir koma saman í kringum eitthvað tryllt fyndið sem stigmagnast með hverri mínútu. Í fyrstu myndinni var það Nadiu-klámið, í nr. 2 voru það meintu lesbíurnar, í Wedding var það misheppnaða steggjunin og í þessari er það stórkostlegt fíaskó þar sem reynt er að koma ölvaðri stelpu heim til sín. Einnig eru nokkrir twistar hjá persónunum sem ég mun ekki spylla, og þeir ættu gefa fólki sting í magann af hlátri.
Þeir sem kunna að meta American Pie (semsagt rétta stöffið, ekki hitt ógeðið) eiga eftir að fá allt það sem þeir borguðu fyrir út úr þessari – kannski pínu meira. Myndin er með þeim fyndnari sem ég hef séð síðustu misseri og þökk sé þess að ég hef þekkt Jim, Finch, Stifler og hina vinina síðan ég var 12 ára var mjög ljúft að fá að kveðja þá betur í þetta sinn. Ég grátbið síðan Universal um að láta þessa seríu eiga sig framvegis.
(7/10)