Ómissandi blendingsgrautur!

(ath. þessi umfjöllun er spoiler-laus)

Ég er hrikalega feginn að hafa farið að ráðum skarpra netnörda sem ítrekuðu að maður ætti helst að sjá þessa mynd án þess að vita nokkuð um hana fyrirfram. Mér finnst það reyndar eiga við um allar myndir ef maður kemst auðveldlega hjá sýnishornum en það er ekki af ástæðulausu af hverju þessi fyrirmæli fylgja The Cabin in the Woods. Maður á helst að vita sem minnst um hana. Helst ekki einu sinni horfa á eitt einasta sýnishorn. Hlustið bara á hæpið og hafið það hugfast að nördagoðið Joss Whedon er annað foreldri verksins. Þess vegna verður umfjöllunin hjá mér í styttri kantinum því það sem skiptir öllu er að myndin er ekki bara góð, heldur snargeðveik í bæði orðsins fyllstu merkingu og alla staði. Hún er skemmtileg, hröð, troðfull af trylltum hugmyndum og manni líður eins og bókstaflega hvað sem er getur gerst í henni.

Cabin er það sem Whedon kallar „love/hate“ bréf til nútíma hryllingsmynda og áttar maður sig ekki alveg á þeirri pælingu fyrr en maður sér myndina. Hún gerir makalaust grín að þeim og er á sama tíma frumleg, ljót og spennandi mynd sem kemur með ótrúlegar fléttur á formúlukennt söguform. Það eru nokkrir kaflar þar sem handritið vekur upp tilfinningu eins og brandararnir séu að þreytast og oftast þegar myndin virkar eins og hún ætli að endurtaka sig, þá tekur hleypur hún í allt aðra átt. Seinustu 20 mínúturnar eru án efa með því fyndnasta, brjálaðasta, steiktasta, frumlegasta og skemmtilegasta sem ég hef séð í svona „hybrid“ hryllingsmynd. Á þessum tímapunkti fara þeir Whedon og Drew Goddard (leikstjóri myndarinnar og vanur samstarfsmaður Whedons) í svo brenglaðar áttir að hausinn á manni springur úr gleði, og aldrei hika þeir við að segja: „Yep, we went there.“

Djöfull hlýtur Sam Raimi að digga þessa mynd í klessu.

Handritið sýnir samt persónuörkum ekki mikinn áhuga og farsagangurinn skilur stundum eftir ósvaraðar spurningar. Myndin tekur sig samt aldrei alvarlega og þess vegna finnst mér erfitt að líta á það sem alvarlegan galla því myndin er alltof upptekin til þess að missa flæðið og fulláhugasöm á efnið til að hún detti á sjálfsstýringu. Myndin daðrar oft við svipaðar hugmyndir og týnda klassíkin Behind the Mask gerði síðast og Scream þar áður. Hvað krufningar á hryllingsmyndageiranum varðar voru útúrsnúningarnir fyndnari og betur skrifaðir í þeim myndum. Ég vil alls ekki fara út í smáatriði en handritið stígur líka svolítið feilspor með ákveðnu atriði sem inniheldur Chris Hemsworth og hans hugrekki. Þar er um að ræða atriði sem ætti að vera ofsalega spennandi en myndin skemmir það svolítið með því að sýna mikilvæga afhjúpun snemma í fyrri helmingnum. Áhorfandinn veit meira en hann ætti í rauninni að gera, finnst mér, og það hefur áhrif á eina stærstu senuna. Aðrir kvörtunarþættir eru hins vegar minimalískir og fjara dálítið út þegar heildarniðurstaðan á þessari sýru er skoðuð – sem betur fer.

Árið 2012 er af augljósum ástæðum árið þar sem Joss Whedon fær loksins að skína sem aldrei fyrr, og það kemur lítið á óvart að The Cabin in the Woods skuli einmitt vera skrifuð af hreinræktuðum nördum handa okkur hinum nördunum. Húmor, hryllingur og kaldhæðni er aðaltungumálið, og þótt ég muni aldrei aftur fá þessa fyrstu upplifun þá get ég ekki beðið eftir að sjá hana aftur. Og helst með einhverjum sem hefur ekki séð hana.


(8/10)