Raðfullnæging með ofurhetjum!

Sjálfumglaði Járnmaðurinn, græni, skapstóri Rumurinn, bandaríska túlkunin á norræna þrumuguðinum Þór og Kanakafteinninn í fánalitunum ásamt ómetanlegum liðsauka; Allir þessir hasarblaðasnillingar saman komnir í einn gríðarlega safaríkan pakka. Aðeins þeir sem hafa engan áhuga á háværu brellubíói eiga ekki eftir að taka á móti þessu með opnum örmum, fagnandi gleðitárum og kjánalegu brosi. Stundum langar mann bara til að skrækja eins og smástelpa af gleði.

Við sjáum risastórar brellumyndir oft á hverju ári en The Avengers er partur af einhverju sem sést voða sjaldan og stýrist af metnaðarfullri grunnhugmynd sem á sér bókstaflega ekkert fordæmi í kvikmyndasögunni, eða að minnsta kosti ekki á þessum skala. Það er hægt að kalla þessa mynd tröllvaxinn endasprett á einhverju sem hefur verið byggt upp í gegnum fimm aðrar myndir, sem hafa hingað til þótt einnig vera af sæmilegri stærð. Það er sömuleiðis hægt að segja að hér sé upphafið að einhverju svo miklu, miklu stærra en maður hefur áður séð og þess vegna mun myndasögugeirinn skiptast núna í sitthvort tímabilið: Fyrir Avengers (F.A.), og eftir Avengers (E.A.).

Að sjá svona margar ofurhetjur í einni risamynd, með forsögu hverrar þegar kvikmyndaða, er líkt og að sjá í huganum uppáhaldsmyndina þína þegar þú varst opinmynntur pjakkur í æsku. Þessa mynd sem maður sá alltaf fyrir sér í hausnum sínum þegar maður lék sér með alls kyns dótakalla. Ég veit nú reyndar ekki alveg hvaða hetju ég hefði haldið mest með ef ég væri krakki og sæi þessa mynd í dag, en sem (svona eiginlega) fullorðinn maður verð ég ekkert minna spenntur fyrir svona einstakri hasarupplifun.

Forréttirnir eru allir búnir. Þeir tóku sinn tíma og voru misjafnlega bragðgóðir og fullnægjandi, en loksins fáum við alvöru máltíðina sem var beðið eftir. Orðið máltíð er samt nokkuð vægt að mínu mati og myndi ég frekar kalla þetta heljarinnar veislu. Og akkúrat þegar maður hélt að væri ómögulega hægt að hæpa upp eina bíómynd meira er Joss Whedon, konungur nördanna, fenginn til þess að hafa tök á þessum epíska ofurhetjuópus. Hann hefur fengið hlutverkið sem margir, margir aðrir hefðu auðveldlega getað klikkað á og það er að þræða fullt af ólíkum persónum – þar sem hver hefur sinn eigin bakgrunn – og þróa náttúrulegan söguþráð úr þessu án þess að eyða of miklum tíma og pína hlutina í vitlausa átt. Ef Whedon hefði ekki getað gert framúrskarandi og unaðslega skemmtilega Avengers-mynd með rétta tóninum og andanum, þá stórefa ég að nokkur annar hefði getað það.

Það eru alltaf góðar fréttir þegar Whedon skrifar, en miklu betri fréttir þegar hann bæði skrifar og leikstýrir því þessi maður kann betur en margir aðrir að sía út það sem á ekki heima á skjánum. Honum er alltaf annt um persónur sínar og sættir sig ekki við annað en að hasar og fjör sé í ásættanlegum skammti svo lengi sem söguþráðurinn dettur ekki úr augsýn. Eins og þetta séu ekki eðalkostir í sjálfu sér er hann líka mjög góður að stýra mörgum leikurum saman og oftar en ekki verður til bráðfyndið samspil úr því og fullt af óvæntum uppákomum. Hver einasti styrkleiki sem þessi nördakonungur hefur nokkurn tímann öðlast virðist koma að frábærum notum í The Avengers. Ekki bara er þetta það besta sem ég hef séð frá þessum fagmanni, það vandaðasta (og klárlega það fyndnasta) sem hefur nokkurn tímann borið Marvel-merkið heldur líka ein alskemmtilegasta afþreying sem ég hef séð síðustu árin. Kannski á allri ævi minni.

Myndin er stanslaust á hreyfingu og plottið er í sífelldri þróun eins og það á að vera. Meira að segja í rólegu atriðunum dettur keyrslan aldrei niður, enda er ekki eins og handritið hafi ekki nóg til að gramsa í, hvort sem það er bakgrunnur eða dýnamískar persónudeilur (og hver elskar ekki að sjá ofurhetjur rífast??). Söguþráðurinn er reyndar frekar einfaldur en myndin er verulega þétt, engu er ofaukið hvað útskýringar varða og hvert atriði er rökrétt framhald af því fyrra. Það er ómögulegt að renna ekki með flæðinu því myndin er stöðugt upptekin við það að sýna persónufjöldanum athygli. Whedon virðist stundum fórna dýpt fyrir gott rennsli og þess vegna ristir persónusköpunin ekkert skelfilega djúpt en upplýsingarnar og prófílarnir eru glæsilega meðhöndlaðir. Enginn er skilinn útundan og allir fá að njóta sín, á einn hátt eða annan. Maður þarf ekki einu sinni að hafa séð allar hinar myndirnar til að geta hoppað beint inn í þessa, en af augljósum ástæðum er það tíu sinnum betra.

Brelludýrðin er gjörsamlega sjúk, hasarinn meiriháttar og tónlistin vel við hæfi til að koma manni í rétta hetjugírinn. Í orðsins fyllstu merkingu er þetta eins og að sjá þína uppáhalds teiknimynd vakna til lífsins í miklu flottara formi og með leikurum sem vita hvað þeir eru að gera. Það er nú ekki lítið mál að fronta svona marga leikara saman í eina skipulagða hrúgu og ef samspilið væri dautt, þá er ekki séns að myndin hefði verið með púls líka. Þeir Robert Downey Jr., Chris Hemsworth og Chris Evans hafa allir fengið góða upphitun og þess vegna er sjálfsagður hlutur að þeir standi fyrir sínu, ekki síst þegar Whedon fær að temja þá og sleppa þeim svo lausum. Downey hefur það nú sjálfur fram yfir hina að hafa fengið tveggja mynda uppbyggingu og nýtur sín alla leið með húmorinn og egóið. Hemsworth pumpar aðeins meiri reiði í þrumuguðinn heldur en áður og gerir það nú bara skrambi vel og Evans vinnur sér áfram inn leið inn í hjarta manns með sjálfslausum hetjudáðum sínum og meðfæddum leiðtogahæfileikum.

Scarlett Johansson fékk einnig góða æfingu sjálf í langbestu senunni í Iron Man 2 og reglulega hafa þeir Samuel L. Jackson og Clark Gregg skotið upp kollinum án þess að gera neitt af viti (svipað með cameo-ið sem Jeremy Renner fékk í Thor). Í The Avengers eru allir í þægindasvæðinu sínu, og enginn virðist ekki eiga heima í myndinni. Eina undantekningin er leikkonan Cobie Smulders (þekkt af mörgum sem Robin úr How I Met Your Mother), sem gerir svosem ekki margt annað en að skreyta bakgrunninn með þröngum galla og sætu andliti, en hún dregur svakalega athygli að sjálfri sér og í mínu tilfelli fer röddin hennar stundum í mínar fínustu taugar. Líklegast hefði mátt skipta henni út en kannski stafar þessi kvörtun af því að allir (já, allir!) hinir töffararnir eru bara svo ofsalega harðir og skemmtilegir að nýliðarnir þvælast bara fyrir (auka-aukaleikarar og statistar meðtaldir – þeir geta verið voða stífir).

Mark Ruffalo, aðalnýliði myndarinnar, er hins vegar alveg suddalega góður. Miklu betri sem Bruce Banner en Edward Norton að mínu mati. Ég læt Hulk-skoðanirnar mínar í friði að sinni vegna þess að ég tilheyri hötuðum minnihlutahóp sem fannst Ang Lee-myndin betri en endurræsingin frá 2008. Mér fannst Eric Bana vera ljómandi fínn og Norton í rauninni líka. Gallinn með Norton fannst mér samt alltaf vera sá að mér fannst ég meira vera að horfa á leikarann heldur en karakterinn, og ég fann aldrei fyrir slíku hér. Ruffalo sýnir ekki minnsta vott af óöryggi – þrátt fyrir að vera innan um vanari menn – og kemur sér ótrúlega vel fyrir í hópnum. Svo hefur græni lurkurinn sjálfur – sem stelur ÖLLUM sínum atriðum – aldrei komið betur út í bíómynd. Einnig er ég (aftur) mjög sáttur með Tom Hiddleston í hlutverki Loka. Hann var ógleymanlegur í Thor en hér er hann betri. Og miðað við hversu stór hópur af hetjum er hér á svæðinu er eins gott að illmennið sé ásættanlega gott og ógnandi, og Loki er einn sá allra snjallasti og áhrifaríkasti sem Marvel hefur gubbað út í bíómynd. Hann er svona næstum því eins og Hannibal Lecter í fantasíuformi; lúmskt heillandi, lúmskt fyndinn, skarpur, reiður, valdasjúkur, hættulegur og bætir duglega upp fyrir mannlegu ókosti sína með ótakmarkaðri beitingu á sálfræði til að rugla í mótherjum sínum. Ég fékk hroll í einni senunni með honum á móti fröken Scarlett.

Svo við sættum okkur við staðreyndirnar þá gerast ofurhetjumyndir sjaldan mikið ánægjulegri en þetta. Það líður aldrei langt á milli atriða sem eru svo andskoti svöl, spennandi, grípandi eða kómísk og ég get varla talið þau skipti þar sem nördafullnægingin sprengir kvarðann, sérstaklega í seinni helmingnum. Það er sennilega meiri hasar og húmor hér en í hinum Pre-Avengers myndunum til samans, og það eitt og sér er næg ástæða til þess að gefa Whedon og Marvel-stúdíóinu andlegt bangsaknús fyrir að skila því sem var lofað. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þessi mynd hér um bil allt sem maður vildi að hún hefði verið og kannski aðeins meira. Augun lýsast upp við tilhugsunina um hana og ég mun örugglega horfa oftar á hana heldur en ég mun þora að viðurkenna. Og ef það væri ekki fyrir glænýja Batman-mynd (frá einhverjum besta leikstjóra sem til er) þá myndi ég segja öllum öðrum myndasögumyndum á árinu að pakka sig saman og hypja sig burt.


(9/10)