Ísland hefur stigið inn á nýtt svið í kvikmyndagerð með Fallax, fyrstu íslensku frásagnarmyndinni sem gerð hefur verið alfarið í sýndarveruleika. Myndin hefur þegar vakið athygli á alþjóðavettvangi, meðal annars á Art VR Film Festival í Prag og Imagine Fantastic Film Festival í Amsterdam, þar sem hún hlaut verðlaunin Immersive Award. Í desember verður hún sýnd á Animateka í Slóveníu.
Þó að Fallax sé nýkomin út, aðeins tveggja mánaða gömul, er hún nú þegar farin að skrifa sig inn í íslenska kvikmyndasögu.
Ég hitti Nönnu Gunnars framleiðanda myndarinnar, og Owen Hindley leikstjóra, eftir einkasýningu og fékk að heyra heillandi sögu verkefnisins sem hófst á breskum loftfimleikum, þróaðist í miðjum heimsfaraldri og endaði sem fjögurra ára ferðalag inn í hulduheima og íslenska náttúru.
Upphafið sirkusverk, heimsfaraldur og hugmynd sem átti að taka þrjá mánuði
Nanna segir að verkefnið hafi byrjað sem alþjóðlegt samstarf við breskan loftfimleikahóp sem heitir Hikapee. Þau áttu að setja upp sviðsverk í Bretlandi, en heimsfaraldurinn stöðvaði allt. Þá spurðu þau sig hvað væri hægt að gera án þess að hittast.
Nanna segir: „Við hugsuðum bara; „hvað getum við gert núna“. Owen kom þá með hugmyndina að gera „litla“ mynd í sýndarveruleika.“
Owen rifjar þetta upp og brosir: „Ég sagðist ætla að sjá um allt hið sjónræna. Við myndum setja hópinn í hreyfiskynjunarbúninga og gerum hliðarsögu sem tengist sviðsverkinu. Þetta átti að taka þrjá mánuði en varð að fjögurra ára verkefni.“
Þau fengu loftfimleikahópinn í hreyfiskynjunarbúningum inn í vöruhús í Englandi, stýrðu tökunum frá Íslandi og unnu þannig allt verkefnið á tímum þegar fólk gat ekki hist í sama rými.
Huldufólk, íslenskt landslag og loftfimleikar sem verða að verum
Hikapee hópurinn hafði mikinn áhuga á íslenskri þjóðtrú.
Owen segir: „Við sýndum þeim íslenska náttúru og sögur um huldufólk. Þau heilluðust og vildu búa til leikverk sem sýndi hið ósýnilega með ljósi, sporlausum hreyfingum og loftfimleikum.“
Fallax er hliðarsaga við sviðsverkið sem þau gerðu saman og kláruðu árið 2023, en stendur alveg sjálfstæð sem kvikmynd í sýndarveruleika.
Pólýgongrafík, Stranger Things tengsl og hönnuður sem fannst á netinu
Listrænn heimur Fallax er einfaldur í formi en ótrúlega áhrifaríkur. Hönnuðurinn á bak við útlitshönnunina, Simone Tranchina, fannst á netinu alveg óvænt.
Nanna segir: „Við fundum Simone bara á netinu. Hann kom beint úr verkefni þar sem hann var að hanna fyrir Stranger Things VR og um leið og við sáum vinnuna hans vissum við að við yrðum að fá hann með.“
Owen sá svo um landslagsmyndun, lýsingu og sjónræna uppbyggingu ásamt Simone. Fallax notar pólýgongrafík sem byggir á einföldum formum, en útkoman er óvenju rík og þétt í listrænni nálgun.
Saga án orða sem talar til allra
Fallax er án hefðbundins talmáls og það var viljandi gert.
Nanna útskýrir: „Við vildum gera alþjóðlega mynd. Ef hún er án tals þarf ekki að þýða eða dubba hana og hún getur farið hvert sem er í heiminum.“
Myndin er því bæði rótgróin í íslenskri náttúru en algjörlega alþjóðleg í framsetningu.
Hve lengi þolir fólk sýndarveruleika
VR tækni er tiltölulega ung og þróast hratt. Oculus sýndarveruleikaagleraugun komu á markað 2014 – 2015 og Owen byrjaði að vinna með sýndarveruleika árið 2016.
Lengd VR mynda er enn í mótun, en flestir þola illa að vera í þungum búnaði í langan tíma.
Nanna segir: „Flestar VR myndir eru tíu til fjörtíu mínútur max. Okkur fannst tuttugu mínútur vera góður millivegur, ekki of stutt og ekki of langt.“
Teikningar, tónlist og hljóðheimur
Mesta vinnan laut að teikningu, sjónrænum heimi, hreyfiskynjun leikaranna og ekki síður tónlist og hljóðhönnun sem skapa stóran hluta upplifunarinnar.
Nanna segir: „Hljóð og tónlist eru risastór hluti af þessu þar sem myndin er án orða. Upplifunin þarf að koma í gegnum hljóð og hreyfingu.“
Íslensk náttúra sem lifnar við

Fallax er er mjög íslensk að upplagi. Þeir sem þekkja íslenska náttúru finna strax fyrir henni í myndinni. Kindur, fjöll, hraun, vindur, kyrrð og ógnarrómur birtast í nýjum búningi.
Nanna segir: „Mér finnst hún rosalega íslensk. Það er landslagið, kindurnar, Þorparinn í útvarpinu. Ég er spennt að sjá viðbrögðin hér heima.“
Owen bætir við: „Fyrir mig er Fallax eins konar ástarbréf til íslenskrar náttúru. Hún er falleg, sérstök, hættuleg og allt öðruvísi en sú náttúra sem ég ólst upp við.“
Hvenær má sjá Fallax á Íslandi
Fallax er enn á hátíðarferðalagi og því ekki komin í almenna sýningu á Íslandi.
Nanna segir: „Við erum að velta því fyrir okkur hvort við setjum upp okkar eigin viðburð eða verðum hluti af stærri hátíð. Það gæti orðið á næsta ári, annaðhvort í vor eða haust.“
Að hátíðahringnum loknum verður Fallax sett á Steam og Meta Store svo fólk geti séð hana heima hjá sér.
Verðlaun, framtíðarmöguleikar og ný verkefni
VR flokkurinn er ekki kominn inn í Óskarsverðlaunin, en er þegar orðinn hluti af Emmy hátíðinni.
Nanna segir: „Óskarsverðlaunin eru ekki komin með VR flokk enn, en Emmys eru komin með hann. Maður má alveg vona.“
Teymið vinnur nú áfram með ný verkefni á mörkum leiklistar, kvikmynda og tölvuleikja.
Owen segir: „Mig langar að gera tölvuleik með sterkri sögu næst. Við erum stöðugt að kanna mörkin milli þessara miðla.“
Í lok samtalsins nefndi Owen að tæknin sem notuð er við sýndarveruleikaupptökur ætti margt sameiginlegt með kúlutjöldum, svokölluðum fulldome sýningum. Hann kveðst spenntur fyrir því formati og að hann gæti vel séð fyrir sér að Fallax yrði einhvern tíma sýnd inni í slíku hvelfdu rými þar sem myndin tekur bókstaflega yfir allan himininn í kringum áhorfandann.
Að lokum má nefna skemmtilega staðreynd: orðið Fallax er latneska heitið á plöntunni Tunguskollakambi, plöntu sem vex aðeins við heita hveri á Íslandi. Nafnið á sér því jafn litríkan og forvitnilegan uppruna og myndin sjálf, íslensk náttúra sem kraumar rétt undir yfirborðinu og birtist í formi sem er bæði töfrandi og framandi.






