,,Gífurlega spennandi heimur''

Borgriki2_Poster_sÍslenska spennumyndin Borgríki II – Blóð hraustra manna verður frumsýnd þann 17. október næstkomandi. Myndin er sjálfstætt framhald myndarinnar Borgríki sem kom út árið 2011 og er eftir leikstjórann Olaf de Fleur, en hann skrifar handrit myndarinnar ásamt Hrafnkeli Stefánssyni.

,,Þeir sem sáu fyrstu myndinna geta búist við að sjá meira af karakterunum sem þeir fíluðu í fyrstu myndinni, ásamt þess að kynnast nýjum leikmönnum úr þessum heimi,“ segir Hrafnkell.

Myndin fjallar um Hannes, metnaðarfullan lögreglumann, sem lendir á hálum ís þegar hann hefur rannsókn á yfirmanni fíkniefnadeildar lögreglunnar eftir ábendingu frá fyrrverandi glæpaforingja sem situr inni.

Hrafnkell og Olaf hafa skrifað þrjár kvikmyndir saman. Kurteist Fólk, Borgríki og nú Borgríki II – Blóð hraustra manna.

,,Við höfum áhuga á samskonar myndum og erum yfirleitt mjög samstilltir þegar kemur að skrifum og vinnu á myndunum. Við erum ekki alltaf hundrað prósent sammála um allt auðvitað en setjum fram okkar rök, og þau sterkustu vinna,“ segir Hrafnkell um samstarfið.

Þegar Hrafnkell er spurður út í framhaldið þá vill hann meina að engar ákvarðanir hafi verið teknar um hvort þriðja myndin verði gerð, en það sé ekki útilokað að það verði kafað dýpra inn í þennan heim sem hann og Olaf hafa skapað.

,,Mér finnst þetta ennþá gífurlega spennandi heimur, og ég væri að ljúga ef ég segði að það væri ekki farnar að gerjast einhverjar hugmyndir, en það er alltof snemmt að skoða þær alveg strax,“ segir Hrafnkell að lokum.