Fokkíng góður skítur!

Íslenskar kvikmyndir hafa oft virkað á mig eins og hæfileikaríkur krakki með mikinn áhuga en lélegt sjálfstraust, þar sem manni langar að klappa honum á hausinn eftir hverja framför og segja: „Þetta var gott, en ég veit að þú getur betur.“ Okkur skortir oft frumleika og það er merkilegt hvað við njótum þess mikið að segja alltaf sömu helvítis dramasögurnar aftur og aftur um erfitt fjölskyldulíf sem þarf alltaf að pakkast saman í hefðbundna, niðurdrepandi tilfinningaklámið.

Ég hef líka alltaf sagt það að frekar kýs ég að horfa á slaka íslenska mynd sem prófar nýja hluti, frekar heldur en eina fína sem er týpísk út í gegn. Alvarleiki  hefur að minnsta kosti alltaf verið okkar aðalmál í bíóinu og af einhverjum ástæðum hefur glæpamyndunum okkar gengið voðalega misvel að vera almennilega sannfærandi, hvað þá grípandi. Nokkrar hafa komist nálægt því, en ef málið er að leggja spilin á borðið og segja hlutina nákvæmlega eins og þeir eru, þá hefur engin íslensk glæpamynd haldið óslitinni athygli minni eins vel og Svartur á leik. Ég skal jafnvel gerast svo djarfur og míga aðeins á þá breiðu, íslensku kvikmyndasögu sem við höfum (því, sættum okkur við það, hún er ekkert alltof æðisleg) og segja að mjög fáar myndir sem við höfum gert almennt hafa haldið mér jafnföstum við skjáinn og þessi.

Það neikvæðasta sem hægt er að segja um þessa mynd tengist einfaldlega efniviðinum, til dæmis vegna þess að Scorsese, Pusher-þrenningin og hinar ýmsu evrópsku dópheimamyndir hafa alveg dekkað þetta svæði áður. Farið hefur verið oft yfir þessa sögu áður, og greinilega í alls konar formum, og ljóst er að Svartur á leik bætir ekki miklu við. Galdurinn er samt alltaf þannig að ef maður er með klisju í höndunum, þá þurfa vinnubrögðin að vera nógu góð til að maður hætti að nenna að spá í því.

Ég get ekki sagt að persónudýpt og prófílar sé eitthvað sem fær sérstaka athygli í handriti þessarara myndar.  Venjulega hefur það mjög vond áhrif en leikstjórinn Óskar Þór Axelsson hefur akkúrat réttu brögðin upp í erminni til að ýta vissum ókostum til hliðar og koma með haug af jákvæðum punktum í staðinn. Ég veit ekkert hvaðan þessi gaur kom, en hann kann að halda athygli manns. Það er nóg af flottum senum til staðar (óþægilegum, stílískum, taugatrekkjandi, kynþokkafullum, nefnið það!), svo ekki sé minnst á það hvernig ræman sendir mann burt í réttum fíling með geggjaðri lokasenu.

Eftir áhorfið var ég frekar hissa, en meira hálf sjokkeraður, líðandi eins og einhver handrukkari hefði komið heim til mín og rústað stofunni minni til að senda einhver skilaboð.

Það sem gerir þessa týpísku sögu að nett frábærum krimmaþriller er aðallega hversu mikil og metnaðarfull vinna er lögð í hana. Leikstjórnin er markviss og sjálfsörugg, þar sem sérstakt tillit er tekið til þess að halda myndinni stöðugt rúllandi, þá með senum sem skipta máli fyrir heildarmyndina í stað þess að tefja til að koma dýpri merkingum til skila. Í fullri hreinskilni þá bjóst ég alltaf við því að þessi mynd færi sígandi niður á við því lengra sem liði á hana, því að mínu mati er það nokkuð algengt í svona myndum. Það gerðist hins vegar aldrei. Myndin fer beint á flug og heldur frábærum takti með æðislegu tónlistarvali og stíl sem er kannski ögn dæmigerður, en smellpassar engu að síður. Allt þetta punt myndi þó ekki skipta neinu máli ef tónninn væri ekki alveg réttur (og þ.a.l. sannfærandi) og stærsta ástæðan af hverju ég keypti myndina frá upphafi til enda var sú að leikararnir voru algjörir meistarar í sínum (miserfiðu) hlutverkum.

Það hefði ekki þurft nema einn rangan leikara í mikilvæga rullu og þá hefði risastór hlunkur farið alveg í vaskinn. Þorvaldur Davíð sýnir mér loksins að það er eitthvað meira á bakvið hann heldur en bara sætt andlit og þar sem hann fær erfiðasta hlutverkið er ekki annað hægt en að sleikja drenginn aðeins upp og klappa fyrir honum, þó það væri ekki nema í fáeinar sekúndur. Jóhannes Haukur er samt að mínu mati orðinn einn helsti kóngur Íslands hvað leikaranna okkar varðar. Hann er frábær húmoristi, og hefur í gegnum tíðina aðallega verið ofsalega fyndinn og skemmtilegur gaur (meira að segja í ruslþáttum eins og Marteini), en hér finnur hann sinn innri, ógnandi djöful og gerir persónunni hárrétt skil. Hann sýndi fínan „ekki-fokkast-í-mér“ harðhaus í Reykjavík-Rotterdam, en nú er þetta farið á allt annað level hjá honum. Damon Younger á líka skilið gubbandi hrós, fyrir það að láta þann karakter virka sem hefði verið auðvelt að klúðra og gera hlægilegan.

María Birta er að vísu ekkert stórkostleg, en handritið notar persónuna hennar sparlega, og þar sem hún gefur áhorfandanum brjóstin og rassinn sem fengu ekki að sjást í Óróa, er ansi erfitt að setja út á hana þegar uppi er staðið. Ég er heldur ekki frá því að Gillz hafi sýnt bara prýðilega takta sem vöðvafjallið á hliðarlínunni. Mér hefur alltaf líkað prýðilega við hann á skjánum, en samfélagið segir mér að forðast það að fara of djúpt út í þessa umræðu.

Svartur á leik lét mig allavega finna fyrir áhrifum sínum – og mér sýnist að ég hafi verið hættulega háður alla leið! Ég ætla aldrei að segja að þessi mynd sé fullkomin og ég get auðveldlega talið upp ýmsar aðrar myndir sem segja sambærilegar sögur betur, en engar sem eru íslenskar. Ekki séns! Það sem skiptir máli fyrir mér er að þetta djarfa undirheimainnlit virkar út og inn, og ég á bágt með að muna hvenær íslensk bíómynd hitti seinast svona vel í mark hjá mér.


(8/10)

PS. Ég skal kaupa mér hatt og taka hann ofan fyrir þessum leikstjóra, ef ekki bara fyrir dugnaðinn að selja manni það (með t.d. bílum, leikmunum og þessari TRYLLTU tónlist) að sagan gerist árið 1999. Hins vegar vil ég asnast til að benda á þá tilgangslausu staðreynd – sem hefur nákvæmlega ENGIN skaðleg áhrif á myndina – að Matrix Reloaded plakatið (sem sést á veggnum hjá Þorvaldi) á ekki heima á þessu tímabili. Í svona tilfellum þurfa aðstandendur að nýta sér IMDb oftar, eða kannski bara Kvikmyndir.is.