Svartur á leik var köllun!

Kvikmyndagerðarmaðurinn Óskar Þór Axelsson datt heldur betur í lukkupottinn þegar hann fékk tækifærið til að koma glæpasögu Stefáns Mána, Svartur á leik, upp á hvíta tjaldið. Hlutirnir versnuðu heldur ekki beint eftir frumsýningu myndarinnar, en hún er þegar talin vera ein sú besta sem hefur verið gerð á klakanum. Notendur síðunnar hafa að minnsta kosti verið duglegir að hrósa henni. Heimir nokkur Bjarnason skrifaði meira að segja notendaumfjöllun og hafði þetta að segja:

„Með þeim betri, ef ekki sú besta íslenska mynd sem ég hef séð… Óskar Þór leikstýrir hérna í fyrsta skiptið og mér finnst að fleiri kvikmyndagerðarmenn ættu að fá svona tækifæri því að nýtt er oftast gott. Óskar notar stílbrögð vel og stíllinn sem einkennir myndina er mjög skemmtilegur, hraðskreiður og dökkur en fellur allur út í að vera of þungur. Klippingin er einnig til fyrirmyndar og gott dæmi um það er byrjunarsenan sem spilast eiginlega sem eitt skot í djammi í Reykjavík. Takan spilar einnig góðan þátt í því og er mest allan tímann frábær og hjálpar stílnum heilmikið. “

Kvikmyndir.is tók viðtal við leikstjórann og spjallaði aðeins við hann um tilurð myndarinnar, uppáhalds senuna hans, ferilinn framundan og kvikmyndasmekkinn almennt.

„Framleiðendurnir keyptu réttinn skömmu eftir að bókin kom út og höfðu m.a. samband við mig til að lesa hana. Ég kolféll strax fyrir bókinni og setti fram mínar hugmyndir um hvernig ég mundi vilja nálgast kvikmyndaaðlögunina. Þeir fíluðu það og ég fékk verkefnið. Lagði drög að fyrsta uppkasti handritsins 2006,“ segir Óskar í tengslum við hvernig hann fékk þetta verkefni í hendurnar.

Upphafið og endir undirheimanna

Aðspurður að því hvað það hafi verið við bókina hans Stefáns Mána sem greip hann mest var svarið skýrt og einfalt. „Ég heillaðist af stílnum, persónunum og sögusviðinu,“ segir hann. „Það var eitthvað mjög „kvikmyndalegt“ við þessa bók og ég sá strax alls konar stílfærslur á senum. Mér leið eiginlega einsog það yrði að koma henni á tjaldið. Þannig að það má segja að þetta hafi verið köllun…“

Undirritaður spurði leikstjórann hvaða sena í myndinni væri í mesta uppáhaldi hjá sér, án þess að segja frá of miklu og þar kom upp í hugann senan þegar Brúnó sést í fyrsta sinn og byrjar að ógna Tóta áður en hann lemur hann. Sú sena gerist mjög snemma í myndinni og telst þar af leiðandi ekki sem spyllir. „Við duttum í algjöran lukkupott þegar við tókum hana upp,“ segir Óskar, „fengum sannkallaðan jólasnjó sem féll allan tímann á meðan við mynduðum fyrri part Hvalfjarðarhlutans, og það var aðfaranótt 1. maí! Ég fíla þessa senu því hún sameinar svo margt sem ég elska í kvikmyndum: leikurinn, „tensionið,“ óvænt atburðarásin og hvað hún er visual með þessum snjó. Aðrar senur sem ég gæti nefnt eru orgíusenan og lokasena myndarinnar. Var mjög ánægður með hvernig þær heppnuðust.“

Þegar viðtalið er tekið hafa yfir 20 þúsund Íslendingar borið augum á þessa mynd og er ljóst að sú tala eigi eftir að hækka töluvert. Óskar segist vera alveg í skýjunum með viðtökurnar, og þar er vægt til orða tekið. „Það er auðvitað alveg svakalega góð tilfinning. Og súrrealísk, segir hann varðandi hvernig honum leið þegar hann sá viðtökurnar. „Við gerðum okkur vonir um að hún myndi höfða ágætlega til áhorfenda enda var það alltaf meginmarkmiðið, en ekkert í líkingu við þetta. Uppselt trekk í trekk og aldrei verið eins mikið selt í gegnum Miði.is. Fyrir utan þetta átti ég ekki endilega von á því að fá góða gagnrýni, a.m.k. var ég viðbúinn að einhver myndi dissa myndina. En það hefur aldeilis ekki orðið, gagnrýni og umfjöllun hefur held ég bara verið rosalega jákvæð, hvert sem litið er. Sem er auðvitað alveg meiriháttar og maður er bara orðlaus. Geri mér grein fyrir því að ég þarf að búa mig undir að það verður pottþétt ekki allt svona jákvætt í næstu bíómynd sem ég geri! Það er einfaldlega ekki hægt. Semsagt, bæði hærður og stoltur yfir þessum viðbrögðum. En um leið er þetta mjög óraunverulegt allt saman.“

Framtíðin og fyrirmyndir

„Ég er núna með nokkra bolta á lofti,“ segir Óskar varðandi verkefni sem eru á teikniborðinu um þessar mundir. „Eitt er frumsamið handrit sem ég skrifaði áður en ég byrjaði á Svartur á leik. Það heitir The Traveler og er í raun amerísk kvikmynd þó hún gerist 1/3 á Íslandi. Svo er ég að skoða nokkrar íslenskar bækur til aðlögunar en ekkert sem ég get talað um núna. Þá er alltaf haugur af handritum sem maður er að lesa. Málið er að það hangir svolítið á spýtunni hvernig gengur með Svartur á leik, bæði hér heima og út, upp á framhaldið. Þannig að þetta mun örugglega ekkert skýrast almennilega fyrr en eftir nokkra mánuði.“

Óskar var spurður að því hvaða helstu fyrirmyndir í bransanum hann ætti sér, og hann segir að það séu helst þeir sem flakka auðveldlega á milli kvikmyndageira og þeirra sem afkasta miklu. „Til dæmis get ég nefnt Steven Soderbergh, Michael Winterbottom, Danny Boyle, Ang Lee, Coen-bræður og David Fincher,“ segir hann. „Annars held ég sérstaklega upp á Hal Ashby, Kubrick, Altman, Coppola og fleiri sem gerðu flestar sínar bestu myndir fyrir 1980. Annars er ég alæta á kvikmyndir, fer bara fram á að þær séu góðar!“

Óskar bætir því við hvað það er sem hann sækist eftir þegar hann horfir á góða mynd. „Ég er alltaf að leita eftir einhverju nýju, einhverju spennandi sem fær mig til að hugsa „vá, ég vildi að ég hefði gert þessa mynd“. Þetta gerist öðru hverju, ekki mjög oft. Sem er líklega eðlilegt,“ segir hann, „En svo kann ég líka rosalega vel að meta þegar kvikmyndir eru vel gerðar og maður finnur að þær koma frá hjarta þess sem þær gerir. Vel gerð genre-mynd t.d. gerir mig mjög glaðan. Ég get horft aftur og aftur á kvikmyndir sem hafa góðan söguþráð, eru vel leiknar og almennt vandað til verka í öllum deildum.“

Leikstjórinn var að lokum spurður hvaða kvikmyndir hann er spenntastur fyrir á þessu ári, og af nýlegum trailerum að dæma segir hann að Prometheus lofi góðu, ásamt The Bourne Legacy. „Svo er náttúrulega The Dark Knight Rises, að sjálfsögðu. Svo eru aðrar sem ég hef lesið um nýlega sem lofa góðu. Ég er t.a.m. spenntur fyrir Argo (sem Ben Affleck leikstýrir), Nebraska, Gambit o.fl. Auk þess sem mér skilst að Spike Jonze og Charlie Kaufman séu að vinna að nýrri mynd saman og hlýtur að vera mikið gleðiefni.“