Craig hvarf, Reeves ráðinn

Bandaríski Matrix leikarinn Keanu Reeves hefur verið ráðinn í stað Bond leikarans breska Daniel Craig til að leika aðalhlutverkið í réttardramanu The Whole Truth. Daniel þurfti skyndilega frá að hverfa í apríl, aðeins fimm dögum áður en tökur áttu að hefjast, en engin skýring hefur verið gefin á brotthvarfi hans.

keanu reeves

Aðrir helstu leikarar, þau  Renée Zellweger, Gabriel Basso og Gugu Mbatha-Raw, eru þó enn um kjurrt. Myndin fjallar um verjanda, sem Reeves mun leika, sem berst fyrir því að fá ungling sýknaðan af ákæru um að hafa myrt auðugan föður sinn.

Leikstjóri myndarinnar er Courtney Hunt (Frozen River) og handrit skrifar Nicholas Kazan. Tökur hefjast í júlí í New Orleans í Bandaríkjunum.

Síðasta mynd Reeves var samúræjamyndin 47 Ronin, og næst má berja hann augum í myndinni Knock, Knock and Passengers. Þá mun hann leika í þriðju Bill & Ted myndinni bráðlega.

The Whole Truth kemur í bíó á næsta ári.