Brosnan vill Hardy sem Bond

Breski The Dark Knight Rises og Dunkirk leikarinn Tom Hardy, hefur fengið góðan stuðning í hlutverk James Bond frá engum öðrum en fyrrum Bond leikaranum sjálfum, Pierce Brosnan.

Daniel Craig mun fara með hlutverk njósnara hinnar hátignar, 007, í næstu mynd, sem talin er verða sú síðasta hjá Craig. Leikstjóri verður Danny Boyle.

Aðrir leikarar sem nefndir hafa verið sem arftakar Daniel Craig eru James Norton, Aidan Turner og Idris Elba.

Die Another Day stjarnan Brosnan sagði breska tímaritinu Mail On Sunday’s Event: „Ég held að kona gæti leiki Bond, en það yrði aldrei James Bond. Daniel Craig hefur verið frábær í hlutverkinu. Hann er í góðu formi, og lítur út fyrir að vera stórhættulegur. Þú trúir því í alvöru að þarna sé náungi á ferðinni sem gæti drepið mann.“

Og Brosnan bætti við: „Hann mun leika í næstu Bond kvikmynd, og svo tel ég að Tom Hardy gæti orðið góður Bond. Ég myndi fagna því að sjá hann í hlutverkinu. Þú þarft leikara sem getur sett smá snúning á þetta – það er það sem gerir Bond að Bond.“

Í tímaritsviðtalinu sagði Brosnan, sem væntanlegur er á skjáinn í sumar í Mamma Mia!: Here We Go Again, að það hefði tekið hann mörg ár að jafna sig á Bond.

Hann segir að Mamma Mia! hafi verið tekin í breska Pinewood kvikmyndaverinu, þar sem Bond myndir eru einnig teknar upp. „Ég leit út um gluggann á búningsherberginu, og sá risastóran 007 vegg á móti glugganum, og ég áttaði mig á að við værum á tökustað James Bond.  Þarna sætti ég mig við fortíðina. Ég átti erfitt í mörg ár .. núna eru tilfinningar mínar gagnvart Bond bara góðar.“

Craig sagði áður en hann samþykkti að leika í næstu mynd, að hann myndi frekar skera sig á púls, en leika Bond á ný. Seinna afsakaði hann ummælin með því að þau hefði hann látið falla tveimur dögum eftir að tökum á Spectre lauk, og hann hefði verið að niðurlotum kominn.

Næsta James Bond kvikmynd, sem er sú fimmta sem Craig leikur í, er væntanleg í bíó í október 2019.