Batman verður illmenni í Spider-Man

Óskarstilnefndi Batman leikarinn Michael Keaton snýr aftur í ofurhetjuheima í myndinni Spider-Man: Homecoming, og mun þar fara með hlutverk þorparans Vulture.

michael-keaton

Forstjóri Marvel Studios, Kevin Feige, staðfesti þetta í samtali við dagblaðið kanadíska, Toronto Sun.

„Við vorum með óskalista, og hann er að rætast að mestu leiti“, sagði Feige. „Cate Blanchett leikur Hela í Thor: Ragnarok og Michael Keaton leikur Vulture í Spider-Man. Og að lokum þá mun Josh Brolin leika Thanos [ í Avengers: Infinity War]. Við hlökkum mikið til.“

Keaton lék síðast ofurhetju í Batman árið 1989 og síðan í framhaldsmyndinni Batman Returns. Í Óskarsverðlaunamyndinni Birdman lék Keaton leikara sem var fyrrum vinsæll ofurhetjuleikari.

Í Marvel teiknimyndasögunum þá er Vulture hliðarsjálf Adrian Toomes. Hann er vélaverkfræðingur sem finnur upp sérstakan búning sem gerir honum kleift að fljúga og gefur honum að auki ofurkraft. Hann snýr inn á glæpabrautina eftir að viðskiptafélagi hans svíkur hann.

vulture-spider-man

Í Spider-Man: Homecoming fer Tom Holland með aðalhlutverkið, hlutverk hins 15 ára gamla Peter Parker. Aðrir helstu leikarar eru Donald Glover, Marisa Tomei, Zendaya, Jon Favreau og Tony Revolori.

Von er á myndinni í bíó 7. júlí á næsta ári, 2017.