Annar gullmoli frá frábærum leikstjóra

Alexander Payne er heldur betur ómetanlegur gæi sem virðist stöðugt hækka í áliti hjá mér, þrátt fyrir að vera nú þegar einn af skemmtilegri leikstjórum sem eru til þarna úti. Alveg frá því að ég sá hina stórfínu Election hef ég haft áhuga á því sem hann gerir og í dag eru fáir sem meðhöndla alvarleg efni, eins og dauða, þunglyndi, framhjáhöld, á svona eftirminnilega fyndinn máta, eins og hann gerir.

Payne er mjög annt um persónur sínar, enda eru þær oftast eðlilegar, gallaðar manneskjur, og mjög trúverðugar og minnisstæðar sem slíkar. Á yfirborðinu eru þær stundum einfaldar staðalímyndir áður en maður fær að kynnast því sem liggur undir. Ég elska líka húmorinn í myndunum hans, fyrst og fremst vegna þess að hann er aldrei aðalfókusinn í þeim. Í staðinn verður hann bara til úr raunsæjum aðstæðum og vel skrifuðum samskiptum á milli persóna. Senur verða sjaldan þvingaðar hjá þessum leikstjóra, hvorki þegar kemur að lúmsku gríni (og meðfylgjandi ádeilu) né dramatík. Þegar sögurnar hans taka sig alvarlega og ætla sér að rétt svo kippa aðeins í hjartarætur án þess að ganga yfir línuna, þá tekst þeim það áreynslulaust. Engin væmni, enginn yfirdrifinn leikur, ekkert slow-mo með píndri fiðlutónlist undir. Allt bara mjög náttúrulegt, einlægt og jarðbundið.

Þessi lýsing á ekki við um allar myndirnar hjá Payne, en þetta byrjaði frá og með About Schmidt og varð síðan betra í Sideways, en hún er líka ein af mínum uppáhaldsmyndum. Álit þitt á fyrri myndum leikstjórans veltur svolítið á því hvernig The Descendants mun virka á þig, en sömuleiðis segir það ýmislegt um hvers konar myndir þú kannt að meta – og ef þú kannt að meta myndir eftir Alexander Payne, þá ertu ekki bara með góðan kvikmyndasmekk, heldur manneskja með húmor, sál og hjarta. Ég ætla ekki alveg að segja að þessi mynd skáki Sideways, en hún er ekki nema hársbreidd frá því að vera jafngóð. Og það er alveg traustur resept á huggulegt skylduáhorf í sjálfu sér.

The Descendants er æðisleg mynd; Sagan er frábær, vel skrifuð, fyndin út í gegn og hlaðin öllum bestu kostunum sem hægt er að biðja um í mynd eftir Payne, og flestir þeirra eru nefndir hér að ofan. Persónurnar, bæði aðal- og auka, skilja allar eitthvað eftir sig og það er ekki stök sena í allri myndinni sem fær mann ekki til að hlæja, brosa eða festast við á einn hátt eða annan. Að mínu mati tekst samt mjög góðri, fullorðinslegri mynd að breytast í hátt í framúrskarandi litla perlu með aðstoð frá George Clooney. Og ef einhver vill meina að hann sé ekki einn besti leikarinn á lífi í dag, sem er stöðugt góður að velja handrit, þá mun ég ganga svo langt með að segja að sá aðili sé heftur á þroska, og með menningarlegt vit á við hamstur.

Clooney hefur oft verið magnaður, og þá á mjög lágstemmdan máta (í staðinn fyrir þessi sígildu „gefið-mér-Óskar“ tilþrif, þar sem leikarar öskra hástöfum og grenja í nærmynd). Það er í rauninni hans besta hlið, og hann nýtir hana í botn í þessari mynd. Þess vegna er ég ekki frá því að þetta sé albesta frammistaða sem ég hef séð frá honum, og það segir manni helvíti mikið. Persóna hans í þessari mynd er ógleymanleg, og ásamt þeirri sem hann lék í Up in the Air er hún í mesta uppáhaldi hjá mér af öllum þeim hlutverkum sem hann hefur leikið. Clooney leikur mann sem gengur í gegnum vægast sagt átakanlegt tímabil, þar sem leiðindin koma að honum úr öllum áttum, og það er ekki sekúnda þar sem maður kaupir ekki það sem hann gengur í gegnum. Það sem heillaði mig líka rosalega við myndina er að reglulega fáum við aukaleikara sem gjörsamlega stela sínum atriðum og eru ekkert síður eftirminnilegri heldur en Clooney, þótt hann eigi augljóslega stærsta og kröfuharðasta hlutverkið. Það er líka samspilið hjá honum við þessa aukaleikara sem fullkomnar aðra hverja senu.

Payne er, eins og venjulega, ekki að sækjast eftir þekktum andlitum, heldur bara þeim sem eru réttir í rullurnar. Shailene Woodley og Amara Miller eru hér um bil óaðfinnanlegar sem Clooney-dæturnar. Venjulega geta leikarar á þessum aldri tekið örlítið á taugarnar en þessar eru frábærar, sérstaklega eldri dóttirin. Nick Krause er einnig drepfyndinn sem karakter sem fáir feður myndu vilja eiga sem tengdason.

Svo koma við nokkur stopp frá leikurum eins og Robert Forster, Beau (bróðir Jeff) Bridges og Judy Greer, þar sem Payne gerir meira við þessa karaktera í fáeinum senum heldur en margir mainstream-leikstjórar (og pennar) gera við suma lykilkaraktera í heilum bíómyndum. Hver og einn hefur lagskiptan persónuleika og er alltaf meira á bakvið hverja stereótýpu en maður heldur fyrst. Payne-blætið mitt nær samt algjöru hámarki í senunni þar sem Clooney hittir á Matthew Lillard, sem leikur viðhald dauðvona konunnar hans. Það þarf ekki nema að horfa á það atriði eitt og sér til að sjá hversu glæsilega handritið, leikstjórnin og leikararnir vinna oft saman hjá Payne. Ég var nálægt því að standa upp og klappa eftir þetta snilldaratriði. Glottið á smettinu mínu var a.m.k. nógu óhugnanlega breitt til að gefa gamalli konu hjartaáfall.

Ég myndi hálfpartinn freistast til þess að kalla þetta meistaraverk ef aðeins hefði verið skorið úr því að dæla út Hawaii-tónlist, sem ætlaði stundum aldrei að enda (hún er nú heldur ekki sú fjölbreyttasta í heimi), og það er auðséð að leikstjórinn hefur ætlað sér að smita aðdáun sína fyrir eyjunni yfir á áhorfandann með því að sýna umhverfisskot eins oft og hann getur. Það sem fer enn meira í taugarnar á mér er að sú auglýsing virtist alveg virka. Og núna langar mig til Hawaii á næstunni (!!).

Ég biðst velvirðingar á því hversu oft ég segi nafnið hans, en í hnotskurn þá gerir Alexander Payne yfirleitt fyndnar, athyglisverðar og hjartahlýjar kvikmyndir fyrir fullorðna, og það er nákvæmlega það sem The Descendants er. Hún rennur svo ljúflega í gegn og vegna þess að Clooney er svo dásamlegur og sympatískur styður maður persónu hans út alla lengdina ásamt fjölskyldunni hans. Af þeim kómísku feel good-myndum sem ég hef séð sem snúast um sorg, dauða, framhjáhöld og fjölskyldu, þá er þessi pottþétt ein sú albesta sem hægt er að finna.

Svo finnst mér ótrúlega fyndið að Jim Rash, sem leikur samkynhneigða skólastjórann í þáttunum Community, skuli vera einn af handritshöfundunum.


(9/10)