Gagnrýni: L7 og Abduction

Kvikmyndir.is er oftast fyrstur fjölmiðla til að birta dóma um glænýjar myndir (að minnsta kosti er það reynt með bestu getu) og að þessu sinni er verið að tilkynna umfjallanir um tvær af fjórum frumsýndum myndum helgarinnar, Abduction og L7: Hrafnar, sóleyjar og myrra. Hinar tvær eru Contagion og íslenska myndin Eldfjall. Umsagnir um þær koma mjög bráðlega.

Hér getið þið séð brot úr báðum umfjöllunum, en það þarf ekki annað en að smella á efnisgreinarnar til að lesa dómanna í heild sinni.

Hrafnar, sóleyjar og myrra – 2/10:

„Tilraun til þess að gera mynd sem er aðallega ætluð börnum og fjölskyldum hefur misheppnast sárlega og í staðinn varð úr þessari framleiðslu sundurtætt þvæla lítur út eins og hún hafi verið skrifuð af sjö ára barni, skotin af manneskju með sjónskaða, klippt af einstaklingi sem hefur verið að læra á Windows Movie Maker í fyrsta sinn og leikstýrð af einhverjum sem kann ekkert á senuuppbyggingu eða tilfinningalegan þunga. Hver einasta sena fellur alveg gjörsamlega flöt og sumar eru svo vandræðalega meðhöndlaðar að ég gat ómögulega haldið aftur hlátrinum.“

Abduction – sama einkunn:

„Lautner er ekki einu sinni svo skemmtilega lélegur að hann á séns í költ-status, eins og aðrar hasarhetjur kvikmyndasögunnar sem höfðu sinnt sínu vel þrátt fyrir að leika illa. Lautner er bara áberandi vitlaust staðsettur. Þessi Bourne-ímynd bara hentar honum ekki, og auk þess er hann bara ekkert aðlaðandi sem stjarnan í aðalhlutverkinu. Málið dautt!“

Einnig vek ég athygli á umfjöllun Jónasar Haukssonar um myndina 13 Assassins. Hún er sýnd núna á RIFF og er kvikmyndaáhugamönnum hiklaust bent á að sjá hana.

„Að mínu mati er 13 Assassins Seven Samurai okkar tíma. Báðar myndirnar fjalla um hóp af sumarai-um/ronin sem fá það verkefni að losna við annaðhvort illan mann eða illan hóp, nota talsvert af hernaðaráætlum á bak við bardagann, hefur einn eftirminnilegan karakter sem passar ekki í hópinn en sannar sig á endanum og þær eru báðar sjúklega epískar.“