Af öllum ofurhetjumyndum sem ég hefði verið til í að sjá framhald af, þá var Ghost Rider ekki beinlínis ofarlega á listanum mínum og eitthvað á ég erfitt með að trúa því að margir aðrir voru betlandi fyrir að sjá slíkt. Ég var svosem ekki á móti þeirri hugmynd að skipta um leikstjóra og ekki síst þegar tveir klikkhausar, sem eru þekktir fyrir snarruglaðar steypur, voru fengnir í staðinn til að gera eitthvað allt, allt öðruvísi en Mark Steven Johnsson gerði. Sá gaur náði rétt svo að mjólka út þolanlega (en samt nett hallærislega) B-afþreyingu úr slöku handriti, og þegar um er að ræða bíómynd um útsendara djöfulsins með mótorhjólablæti og logandi hauskúpu er aðeins tvennt í boði: Annaðhvort verður afraksturinn svo tryllt svalur að þú missir þig í öllu ruglinu, eða efnið verður svo illa meðhöndlað að þú færð fjórfaldan kjánahroll yfir því hversu stíft það reynir að vera kúl.
Núna er mér farið að líða eins og ég vissi ekki hversu gott ég hafði það þegar ég horfði á fyrri myndina, og maður fær bara illt í sálina við þá tilhugsun að leikstjóra eins og Johnson sé skyndilega saknað. Það má vera að hann sé saklaus, mjúkur og með lítið vit fyrir því hvað er töff og hvað ekki, en ég skal samt gefa honum það að kunni að minnsta kosti að hemla á Nicolas Cage, eða að minnsta kosti hafði hann vit fyrir því að halda honum eins eðlilegum og hann gat. Ef Nic er ekki rétt taminn, þá fær hann þessa óhugnanlegu þörf fyrir því að enduruppgötva ofleik. Og þá missir hann algjörlega vitið á skjánum, eins og hann sé nýbúinn að uppgötva það að hann sé grænmeti. Aðeins fáeinir leikstjórar hafa kunnað að stýra þessum einstöku töktum, og í röngum höndum – og sérstaklega með vondu handriti – gengur maðurinn bara berserksgang og kitlar í manni hláturtaugarnar mun oftar en ætti að þykja normalt. Það kalla ég nokkuð einkennilegan hæfileika þegar maðurinn er ekki einu sinni að reyna að vera fyndinn.
Leikstjórarnir Brian Neveldine og Mark Taylor (betur þekktir sem „Crank-gaurarnir“), eru alls ekki þekktir fyrir að haga sér eins og flestir myndu kalla eðlilega. Þeirra sérgrein, ef sérgrein skildi kalla, eru karlrembulegar testósterónmyndir sem virka eins og þær hafa skellt í sig fimmtán Red Bull-drykkjum; Semsagt hratt flæði, kaotískur hasar, hávær tónlist, einhæfar kvenímyndir og klippingar- og tökustíll sem gefur orðinu yfirdrifið glænýja merkingu. Reyndar hef ég stöku sinnum verið nokkuð sáttur með þá því þeir koma sér oft beint að efninu og reyna bara að hafa gaman, bara með missterkum árangri. Í Ghost Rider: Spirit of Vengeance gera þeir heiðarlega tilraun til þess að sleppa Nic algjörlega lausum þar sem honum er leyft að vera eins klikkaður og hann vill. Og þá meina ég „Vampire’s Kiss/Wicker Man-klikkaður.“
Ég gæti skrifað margar blaðsíður um allt það sem hrjáir þessa mynd. Kannski er það vegna þess að hún gerir sáralítið rétt nema tveir ágætir brandarar, tæknibrellur sem naumlega toppa forverann og skemmtileg sjónarhorn sem kameran nýtir sér í hasarnum. Mest er ég þó hissa yfir því að Crank-gaurunum tókst að gera miklu, miklu verri Ghost Rider-mynd heldur en maðurinn sem t.d. valdi vitlausan leikara í Daredevil-hlutverkið og skeit á sig með niðurlægingunni When in Rome, sem átti að vera drepfyndin gamanmynd. Með Crank-myndunum voru þeir Neveldine & Taylor fullkomlega meðvitaðir um það að söguþráður, tilfinningar og lógík skipti ekki rassgat máli, þannig að þunnildunum var bætt upp með alls konar steik sem átti að halda manni uppteknum í 90 mínútur. Spirit of Vengeance er alls ekki hráa, heilalausa, hraðskreiða (og „psychedelic“) fjörið sem hún vill (og á að) vera, þótt hún sé vissulega hrá, heilalaus og hröð – bara ekkert fjörug. Og ef hörmulega skrifuð og hrottalega bjánaleg ofurhetjumynd getur ekki einu sinni skemmt manni með saklausu afþreyingargildi, þá hefur eitthvað MIKIÐ farið úrskeiðis.
Myndin er þunn og þreytandi og þar af leiðandi hvorki spennandi né athyglisverð, og fullþroskaheft og basísk til að vera skemmtileg. Það er meira eins og leikstjórarnir séu að gera grín að Ghost Rider-mynd, og þá án þess að Nic viti þá af því. Það eru nokkrar leifar af þeim húmor sem maður þekkir t.d. úr Crank-myndunum en aðallega er Nic stærsti brandarinn í allri myndinni, og maður fer í harða afneitun um að þetta sé sami leikarinn og brilleraði m.a. í Leaving Las Vegas, Adaptation, Matchstick Men og The Bad Lieutenant (þar sem stælarnir í honum voru akkúrat rétt nýttir). Vandræðalegast er þegar Nic leikur karakterinn Johnny Blaze sem rosalega kvalinn, sympatískan einstakling. Okkur er ætlað að finna til með honum og hálfvorkenna honum. Leikarinn er því miður bara svo lélegur að maður brosir út fyrir eyru líðandi eins og þetta sé allt viljandi gert (öskrin og gretturnar sem hann gerir, rétt áður en hann breytist í kúpukallinn, eru gargandi snilld). Í þokkabót fáum við síðan senu með honum þar sem hann grætur, og frammistaðan er það vond að myndatakan sýnir þetta aðallega í víðskoti. Athugið það að þessi maður hefur leikið í meira en 60 bíómyndum (!).
Hinir leikararnir eru lítið skárri. Það er nógu pínlegt að sjá hversu illa flestir standa sig (nema Idris Elba, sem sleppur með þá lýsingu að vera „skítsæmilegur“) en ekki nóg með það, þá þurfa flestir að keppast við það að ofleika sem mest. Þetta eru samt aðallega óþekkt andlit. Sá sem ætti að skammast sín mest er Ciarán Hinds, og undir hefðbundnum kringumstæðum ætti Satan að vera langsvalsta hlutverkið. Ég hef ekki eina einustu hugmynd um hvers vegna Hinds leikur eins og hann hafi fengið heilablóðfall á settinu, en ég vil halda því fram að leikstjórarnir hafi fundið vafasamar ljósmyndir af honum. Í framtíðinni verður frammistaða reyndu leikaranna í þessari mynd stúderuð út í gegn, með alltaf sömu skilaboðunum: Hvað í logandi helvítinu voruð þið að pæla?!
Það þarf ekki einu sinni að minnast á það hversu mökkleiðinlegur söguþráðurinn er, eða hvað hasarinn nær litlu flugi, sama hversu sturlaður hann er. Líklegast er það vegna þess að handritið er drasl og manni er skítsama um atburðarásina, persónurnar og aðstæðurnar, en líka getur það verið út af því að leikstjórarnir missa sig einum of oft í bannvænni blöndu af þreytandi brellusýningum og endalausum hávaða sem betrumbætir senurnar ekkert, og eykur hausverkinn í staðinn. Klippingin er sömuleiðis algjör horbjóður. Stundum spólar myndin líka hratt í gegnum rammana og af engri spes ástæðu eru þeir oft hikstandi. Svakalega tilgangslaust, og sýnir e.t.v. bara athyglisbrestina sem Neveldine og Taylor eru með. Eða myndin er bara meðvituð um það hversu mikill sori hún er, þannig að hún reynir að spóla lúmskt í gegnum söguna til að klárast sem fyrst.
Ghost Rider: Spirit of Vengeance hefði átt að koma þessum karakter á rétta rólið, og aðeins ef myndin hefði skilað sér í skemmtanagildinu hefði ég réttlætt tilgangslausu tilvist hennar. Það bað enginn um aðra Ghost Rider-mynd, og það mun enginn biðja um slíka aftur í langan, langan tíma. Það er stórmerkilegt hvernig einni tilgangslausri mynd getur misst marks á því að koma á óvart og gera eitthvað til að bæta fyrri myndina upp, en í staðinn er hún svo vond að heimurinn er gerður að verri stað fyrir vikið. Takk æðislega, Crank-gaurar!
Ég held að ég fengi meiri ánægju út úr því að vera fastur inni í læstu herbergi með ofvirkum táning sem blastar pirrandi tónlist í botn á meðan hann spilar tölvuleiki sem þreytast eftir nokkrar mínútur. Ég myndi jafnvel frekar horfa á Punisher: War Zone þrisvar sinnum í röð á einu kvöldi í stað þess að reyna að þrauka þessa aftur.
(3/10)