Alvarlegur Adam á toppnum

Funny People, mynd Adam Sandler, þar sem gamanleikarinn skiptir um gír og leikur alvarlegt hlutverk um langveika grínstjörnu, var mest sótta  myndin í Bandaríkjunum um helgina með um 23,4 milljónir Bandaríkjadala í aðgangseyri.
Þessi helgi var einungis hófleg hvað aðsókn varðaði í Bandaríkjunum og heildaraðsókn sumarsins gaf loksins eftir í samanburðinum við síðastasta sumar, en fram að helgi hafði sumarið verið betra en það síðasta. Síðasta sumar tröllreið Batman myndin The Dark Knight, bíóhúsum stóran hluta sumarsins, en á sama tíma á síðasta ári hafði The Dark Knight þénað um 400 milljónir dala það sumarið.

„Það er sláandi að sjá hve The Dark Knight var sterk á síðasta ári. Á þessum tíma á síðasta ári hafði myndin bætt 400 milljónum dala í kassann. Hvernig er hægt að keppa við það?“ sagði Paul Dergarabedian, sérfræðingur í bíóaðsókn við bíóvefinn Hollywood.com.

Heildartekjur um helgina voru 122 milljónir Bandaríkjadala, sem er 20% minni tekjur en á sama tíma á síðasta ári þegar The Dark Knight var í efsta sæti með 42,7 milljónir dala í aðsókn, og The Mummy: Tomb of the Dragon Emperor þar á eftir með 40 m. dala.  Alls urðu tekjur af The Dark Knight 533 milljónir dala í Bandarískum bíóhúsum, en myndin varð stærsti smellur síðan Titanic var í bíó. 

Síðan sumarmyndatímabilið hófst hafa tekjur af  bíómyndum numið 3,34 milljörðum dala, sem er 0,8% minna samanborið við sama tímabil í fyrra, samkvæmt tölum frá Hollywood.com.

Frumsýningarmynd næstu helgar,hasarmynd Paramount framleiðslufyrirtækisins, 

G.I. Joe: The Rise of Cobra, hefur fengið gott umtal og gæti hjálpað Hollywood á rétta braut miðað við síðasta ár, en það sumar var metár í seldum bíómiðum þegar innlendar tekjur í Bandaríkjunum numu 4,2 milljörðum dala, að sögn, Dergarabedian.

Ef allt árið er skoðað þá hafa bíómyndir skilað 6,43 milljörðum Bandaríkjadala í kassann, og stefnir í að brjóta met ársins 2007 sem var 9,68 milljarðar í tekjur af aðgöngumiðasölu. 

Myndin sem var í öðru sæti aðsóknarlistans í Bandaríkjunum um helgina var ævintýramyndin Harry Potter and the Half-Blood Prince með 17,7 milljónir í aðgangseyri, en alls hefur myndin þénað 255,5 milljónir dala í Bandaríkjunum.

Disney myndin G-Force, sem var á toppnum í síðustu viku datt niður í þriðja sæti með 17,1 milljón. 

Aðsóknin á Funny People er þó viss vonbrigði þar sem gamanmyndir Sandlers eru vanar að opna með 30 – 40 milljónir í aðgangseyri fyrstu helgina.  Universal framleiðslufyrirtækið stólar þó á að myndin spyrjist út og öðlist þannig lengri líftíma í bíó. 

Í myndinni leikur Sandler deyjandi gamanleikara og Seth Rogen leikur nýjan aðstoðarmann hans og brandarasmið. Myndin sameinar aftur Rogen og leikstjóra Knocked Up Judd Apatow, en hann er góður vinur og fyrrum herbergisfélagi Sandlers.

Nikki Rocco, yfirmaður dreifingar hja Universal, líkti breytingunni hjá Sandler við það þegar Tom Cruise lék leigumorðingja í Collateral, mynd sem opnaði með svipaðar tekjur en varð áfram vinsæl og endaði með að vera 100 milljón dala smellur.

„Þarna eru Adam og Judd að fara nýjar leiðir sem leikarar,“ sagði Rocco.