Náðu í appið
Öllum leyfðÍ myndinni er ljótt orðbragð

Funny People 2009

Justwatch

Frumsýnd: 25. september 2009

George Simmons was prepared to die, but then a funny thing happened.

146 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 69% Critics
The Movies database einkunn 60
/100
Teen Choice Awards 2009 Tilnefnd (2): Gamanmynd sumarsins / Karlstjarna sumarsins – Adam Sandler

George er frægur uppistandari sem hefur aldrei gengið jafnvel á farsælum ferli sínum og nú. Því er það hrikalegt áfall fyrir George og fjölskylduna hans þegar hann er greindur með ólæknanlegan blóðsjúkdóm og er ekki búist við að hann muni lifa lengur en eitt ár í viðbót. Á sama tíma kynnumst við Ira sem er ungur og upprennandi grínisti sem gengur mjög... Lesa meira

George er frægur uppistandari sem hefur aldrei gengið jafnvel á farsælum ferli sínum og nú. Því er það hrikalegt áfall fyrir George og fjölskylduna hans þegar hann er greindur með ólæknanlegan blóðsjúkdóm og er ekki búist við að hann muni lifa lengur en eitt ár í viðbót. Á sama tíma kynnumst við Ira sem er ungur og upprennandi grínisti sem gengur mjög illa að ná að komast í gegnum harðan heim sýningarbransans auk þess sem hann á eftir að móta sig sem uppistandari. Kvöld eitt troða þeir báðir upp á sama klúbbnum og George tekur eftir hæfileikum Ira. Í framhaldinu ræður George Ira til að verða aðstoðarmaður sinn með það að markmiði að hann taki við keflinu af sér þegar hann fellur frá. Brátt myndast vinskapur með þeim, en þegar George fær þær fréttir að honum sé skyndilega batnað kemur í ljós hvort hann hafi lært eitthvað af því að horfast í augu við eigin dauðleika...... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Gótt drama með geðveikum bröndurum
Þessi mynd er svolítið öðruvísi en hinar myndirnar sem koma úr Apatow-smiðjunni og þá sérstaklega þær sem eru ekki leikstýrðar af Apatow. Ég ætla ekki að fara mikið út í söguþráð myndarinnar en hún fjallar um grínista (Sandler) sem fær þær fréttir að hann sé með krabbamein. Myndin fjallar svo um lífið hans og margar persónur fléttast í söguþráðinn.

Handritið er vel skrifað, mjög raunverulegt en á sama tíma drepfyndið. Þrátt fyrir að myndin sé drama gæti hún alveg flokkast undir grínmynd því hérna eru einhverjar bestu línur sem ég hef heyrt í Apatow-mynd.

Allir leikarar standa sig vel og Adam Sandler er furðugóður og Seth Rogen (er búinn að léttast) er líka mjög skemmtilegur og víkur aðeins frá þeirri ímynd sem hann hefur skapað fyrir sjálfan sig og það verður gaman að sjá hvað hann gerir í Green Hornet. Eric Bana er geðveikur sem eiginmaður fyrrverandi konu Sandlers og hún (Leslie Mann) leikur líka ágætlega en hefur lítið að gera með húmorinn.

8/10
Vönduð mynd, flott handrit, solid frammistöður. Gæti jafnvel verið besta Apatow-myndin.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Þroskaðri og raunsærri Apatow
Það er auðvelt að gera þau mistök að halda að hér sé einhver gamanmynd á ferðinni. Titillinn er fyrsta merkið, síðan aðalleikararnir og svo auðvitað Judd Apatow nafnið. Það er lykilatriði að stilla væntingar rétt svo það sé hægt að sjá hversu ótrúlega góða mynd er hér um að ræða. Funny People á meira erindi í drama flokkinn, og þeir sem búast við öðru eiga eftir að líta reglulega á úrið eða klukkuna á gemsanum. Ég skal reyndar sjálfur viðurkenna að ég vissi ekki við hverju átti að búast þegar ég sá sýnishornin. Ég hef fílað mest megnið af Apatow-gamanmyndunum og sérstaklega þær sem hann hefur leikstýrt. Hann greinilega þekkir húmor vel en passar líka alltaf upp á það að hafa persónusköpun í fyrirrúmi. En myndirnar hans eru samt svolítið góðar með sig stundum og tilhugsunin að þessi leikstjóri - og vægast sagt öflugi framleiðandi - myndi halla sig meira að dramanu, og í kjölfarið minnka brandaramagnið, var voða undarleg. En skeptíska hugarfar mitt var greinilega tilgangslaust þar sem þessi mynd er hiklaust í hópi þeirra bestu sem hann hefur merkt hér.

Ég skal alveg segja að þessi mynd sé fyndin, því hún er nefnilega mjög fyndin. Það er t.d. hellingur af fyndnum uppistandssenum, en samt sem áður er húmorinn hvergi það besta við myndina. Af þeim myndum sem Apatow hefur leikstýrt finnst mér Knocked Up vera fyndnust, en Funny People er án efa sú þroskaðasta. Hún á eiginlega meira sameiginlegt við myndir eftir James L. Brooks (eða Cameron Crowe) heldur en fyrri Apatow-verk. Hún er einnig minnisstæð og kemur það meira að segja á óvart hvað hún er raunsæ í persónusköpun sinni. Það er voða lítill Hollywood-keimur til staðar og það er aldrei slæmur hlutur ef unnið er vel úr efninu. Það er að vísu ekki mikið um söguþráð hérna en það er gomma af persónum sem Apatow vill leyfa að njóta sín, og þær gera það. A.m.k. þær sem skipta máli.

Adam Sandler er í sínu besta hlutverki síðan Punch-Drunk Love, sem er skondið þar sem hann leikur hérna algjöra andstæðu við karakterinn þar. Hér leikur hann ógeðfellda útgáfu af sjálfum sér, þ.e.a.s. leikara sem gerir kjánalegar mainstream-myndir og er algjör skíthæll. Það er mjög erfitt að líka við hann, eða öllu heldur ómögulegt, en maður vill hafa trú á honum og eins og Seth Rogen-persónan, þá dokar maður sífellt við og vonast eftir að hann sýni lágmarks kurteisi með tímanum. Mér finnst einmitt athugavert hvað persónuþróunin hjá Sandler er raunsæ. Ég þoli ekki þegar skíthælar í kvikmyndum taka ótrúverðugar breytingar á mettíma og verða allt í einu lífsglaðir og æðislegir. Funny People sýnir okkur alvöruna með því að segja okkur að fólk breytist ekki svona allsvakalega á skömmum tíma. Í besta falli eru leiðindabelgirnir meðvitaðir um galla sína og reyna smátt og smátt að vinna úr þeim.

Sandler er nánast magnaður, og ég verð að viðurkenna að mér fannst Seth Rogen vera suddalega góður líka. Ég virkilega þoldi hann ekki í Observe & Report og var farinn að efa að hann gæti leikið annað en sömu týpuna alltaf. Í þessari mynd leikur hann miklu óöruggari einstakling sem maður heldur með. Og eins mikill drullusokkur og Sandler er í myndinni, þá er það Rogen sem eiginlega heldur henni á floti, enda skiptir hans saga mestu máli. Handritið tekur líka mjög hefðbundnar aukapersónur og treður flóknari persónuleika í þær en maður býst við. Eric Bana (skondið að sjá hann þarna. Man einhver hvað Rogen sagði um hann í Knocked Up??) er til dæmis kynntur sem algjör stereótýpa, en þróast síðan í athyglisverðan og afar jarðbundinn gaur. Svipað má eiginlega segja um Leslie Mann, Jonah Hill og Jason Schwartzman. Þau byrja sem eitt, en verða síðan að öðru.

Funny People er samt FÁRÁNLEGA löng (146 mínútur!), og ég skil ekki alveg hvað Apatow hefur svona mikið á móti því að hafa myndir undir tvo tíma. The 40-Year-Old Virgin fannst mér óþarflega löng (sérstaklega eftir að Extended-útgáfan var gefin út) og Knocked Up var á mörkunum. Þessi mynd er samt allt öðruvísi og vegna þess að hún stýrist meira af leikurum og persónusköpun og minna af bröndurum fannst mér hún sleppa. Ég hefði svosem ekkert saknað þess ef Apatow hefði sótt skærin og tekið burt svona 10-15 mínútur. Sumar senur eru teygðar og gera ógurlega lítið fyrir heildina, og svo eru örfá tilfelli þar sem Apatow hefði mátt einblína meira á önnur atriði. Mér fannst líka ákveðinn bút vanta inn í myndina, þá helst þegar persóna Sandlers ákveður að opinbera veikindi sín. Skyndilega vita það allir og maður sá engin merki um tilkynningu. Samt, þeir sem eiga eftir að kvarta mest út af lengdinni eru þeir sem búast við pjúra gamanmynd.

Í mínum augum er Funny People ein af þessum myndum sem nýtur sín best uppi í mjúkum sófa heima í stofu þar sem lengdin nýtur sín vel. Það má vera að hún sé gölluð en þrátt fyrir það er hún svo manneskjuleg og býsna hugguleg til áhorfs. Mér finnst sanngjarnara að kalla þetta fyndið drama frekar en gamanmynd með dramatísku ívafi. Og þar sem að þetta er nú einu sinni Apatow er auðvitað slatti af blótsyrðum, typpabröndurum og sjúklega fyndnum gestahlutverkum. Ég er mjög forvitinn að sjá hvað kappinn gerir af sér næst, og fyrir mitt leyti er ég ánægður að sjá hann prófa nýja hluti frekar en að hætta á því að sjá hann endurgera sama dæmið aftur og aftur.

Ég veit að skoðanir á þessari mynd verða mjög skiptar, en mér fannst hún æðisleg, og ég hvet alla sem hafa áhuga að eyða lágstemmdri (en raunverulegri) kvöldstund með áhugaverðum persónum að kíkja á hana.

8/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

03.08.2015

Er einkvæni eðlilegt? - Trainwreck frumsýnd 5. ágúst!

Gamanmyndin Trainwreck verður frumsýnd miðvikudaginn 5. ágúst. Myndin verður sýnd í Laugarásbíó, Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri. Myndin er einnig forsýnd í kvöld í Laugarásbíói. Amy hefur st...

03.03.2013

Gagnrýni: This is 40

Einkun: 3/5 Kvikmyndin This is 40 er óbeint framhald af kvikmyndinni Knocked Up þar sem þau Katherine Heigl og Seth Rogen voru í aðalhllutverkum. This is 40 gerist þannig 5 árum eftir atburði Knocked Up og fjallar um hjónin Pete og Debbie sem leikin ...

22.09.2012

Sófaspíran undirbýr sig fyrir kuldann

Íslensku sófaspírur landsins hafa ekki úr mörgu að velja úr dagskrá helgarinnar. Þetta er samt oft þannig. Stundum koma helgar þar sem sjónvarpsstöðvarnar dæla út mörgu fínu efni, sem allt er sýnt á sama tíma,...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn