Gamanmyndir sem að stýrast af grófum húmor finnast í tonnatali. Þetta er að sjálfsögðu mjög þreytt stundum. Til eru þó hinar og þessar myndir sem að nýta sér þennan húmor, en leggja sömuleiðis áherslur sínar á annað, og oftar en ekki verða þær miklu betri fyrir vikið.
Leikstjórinn Judd Apatow er greinilega mjúkur maður í sér, þrátt fyrir að nota greddubrandara í ákveðnu magni, og sést það mikið á þessum tveimur myndum sem hann hefur gert á aðeins stuttum tíma.
The 40 Year Old Virgin var miklu meira en bara gróf gamanmynd; Hún bauð einnig upp á áhugaverðar persónur og var hvergi sama um þær. Knocked Up er svipuð, nema mér finnst hún vera miklu betri mynd. Hún er kannski ekki endilega miklu fyndnari, en almennt séð er handritið betra og myndin þolir það mun betur að vera tveir tímar á lengd, sem að virkaði stundum takmarkað á hina myndina.
Þeir kostir sem að Knocked Up hefur eru margir, og gallarnir gífurlega fáir. Myndin virkar fyrst og fremst að nærri öllu leyti. Samtöl myndarinnar eru á tíðum klúr og húmorinn ekki alltaf smekklegur. Persónusköpunin er þó allt annað en litlaus, og lagt er talsvert í að sýna að maður geti haldið með fólkinu sem er á skjánum, sérstaklega lykilpersónunum tveimur, sem leiknar eru af Seth Rogen og Katherine Heigl.
Rogen leikur dæmigerðan aulabárð, eða hann virkar eins og dæmigerður aulabárður. Með tímanum sér maður að það er meira á bakvið hann og kemur Rogen því fullkomlega til skila að þetta er einstaklingur sem áhorfandanum líkar vel við. Hann er jafnframt fyndinn allan tímann og smellur passlega við hlið Heigl, sem er líka ákaflega góð. Aukaleikarar eru síðan miklu meira en bara skraut. Paul Rudd og Leslie Mann eru stórfín og nýja grínstjarnan - að mínu mati- Jonah Hill (sem skotið hefur upp kollinum hér og þar í myndum eins og Grandma's Boy, Virgin og mun næst sjást í Superbad) stelur öllum sínum atriðum.
Myndin tekur sig náttúrlega alvarlega á ýmsum stöðum, sem getur þótt fráhrindandi fyrir suma sem að búast einungis við stanslausu gríni, en mér fannst myndin halda góðu flæði út alla lengdina og m.a.s. í alvarlegu senunum var ég heillaður. Ótrúlegt en satt. Knocked Up er þar af leiðandi bæði manneskjuleg og raunsæ, þrátt fyrir að vera meinfyndin vitleysa í þokkabót.
Jú, myndin er löng, en aldrei of langdregin. Það eru nokkur atriði sem að draga athyglina of mikið frá aðalsöguþræði myndarinnar (t.d. sub-plottið með ''framhjáhaldinu''). Annars, þá er þessi mynd sennilega bæði ein sú fyndnasta í ár sem og einfaldega einhver best heppnaða í gamanmyndageiranum sem ég hef séð í svolitla tíð.
Algjör vellíðunarmynd segi ég! Ekki spurning.
8/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei