Náðu í appið
Bönnuð innan 6 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

G-Force 2009

Justwatch

Frumsýnd: 5. ágúst 2009

The world needs bigger heroes

89 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 22% Critics
The Movies database einkunn 41
/100

G-Force segir frá leynilegri hersveit sem samanstendur af vel þjálfuðum smádýrum. Hér höfum við naggrísana Darwin (Sam Rockwell), Juarez (Penélope Cruz), Blaster (Tracy Morgan), moldvörpuna Speckles (Nicolas Cage) og fluguna Mooch (Edwin Louis). Teymið fær það verkefni að stöðva milljarðarmæringinn Leonard Saber, sem ætlar sér að ná heimsyfirráðum með... Lesa meira

G-Force segir frá leynilegri hersveit sem samanstendur af vel þjálfuðum smádýrum. Hér höfum við naggrísana Darwin (Sam Rockwell), Juarez (Penélope Cruz), Blaster (Tracy Morgan), moldvörpuna Speckles (Nicolas Cage) og fluguna Mooch (Edwin Louis). Teymið fær það verkefni að stöðva milljarðarmæringinn Leonard Saber, sem ætlar sér að ná heimsyfirráðum með að eyða mestöllu lífi á jörðinni með einföldum búsáhöldum. Það verður samt erfiðara fyrir þau eftir að ríkisstjórnin ákveður að hætta starfsemi G-Force sveitarinnar. Það þarf samt meira en það til að stöðva hetjudáð dýranna.... minna

Aðalleikarar

Slöpp, en ekki hörmuleg
G-Force endurvakti vonda minningu hjá mér sem átti sér stað sumarið 2001 þegar ég sá aðra fjölskyldumynd sem stýrðist af brellum og fjallaði um tæknivædd húsdýr sem spörkuðu í loðna rassa og tautuðu auma brandara. Það mun vera Cats & Dogs. Sem betur fer er þessi mynd ekki eins hroðaleg og hún var, en fílingurinn er meira eða minna sá sami.

Það er engu að síður tvennt mjög jákvætt við myndina og þess vegna á ég erfitt með að hrauna yfir hana, eins freistandi og það er; fyrst og fremst er hugmyndin að gera mynd í Bruckheimer/Bay-stíl (af sjálfum Bruckheimer!) með naggrísum afskaplega skondin, og í þokkabót er hún virkilega vel gerð, frá klassísku Bruckheimer-myndatökunni til tölvuvinnunnar. Afgangurinn er ekki upp á marga fiska. Handritið er lélegt (kem betur að því eftir smá) og almennt skemmtanagildið er voða slappt. Húmorinn er líka oftast barnalegur, þótt einstöku sinnum sé reynt að höfða til fullorðinna (með tveimur augljósum tilvísunum í Apocalypse Now og einni í Scarface og Die Hard). Mér finnst samt merkilegt að talandi naggdýr séu ekki það langsóttasta við þessa ræmu. Tek það fram að söguþráðurinn gengur út á illmenni sem reynir að ná heimsyfirráðum... með því að nota venjuleg heimilistæki! Ímyndið ykkur kaffivélar og örbylgjuofna að ráðast á ykkur. Frekar súrt.

Annars er hundfúlt að sjá hvað yfirleitt mjög fyndnir menn á borð við Bill Nighy, Zack Galifinakis (hann var allavega fyndinn sem "Fat Jesus" í The Hangover) og Will Arnett gera nákvæmlega EKKERT annað en að sýna á sér andlitið... og líklega þiggja feitan launaseðil. Ég held að ég hafi a.m.k. aldrei séð Nighy eins aðgerðarlausan og hérna. Raddsetning dýranna er aðeins líflegri. Það var reyndar ágætt að heyra í Sam Rockwell, Steve Buscemi og sérstaklega Nicolas Cage (tók mig smá tíma að fatta að þetta væri hann!) því þeir gerðu þessar stereótýpur, sem öll þessi dýr voru, töluvert skárri til áhorfs. Jon Favreau, Penélope Cruz og Tracy Morgan (sem svartur naggrís - en *sniðugt*) voru þó hundleiðinleg og hefði ég ekki kvartað hefðu þeirra persónur breyst í "digital road kill." Afsakið orðaforðann.

En eins furðulegt og það er að segja það, þá hefði G-Force alveg getað komið margfalt betur út og jafnvel getað skemmt manni sakleysislega hefði betri leikstjóri verið valinn (aumingja Hoyt Yeatman - hann var eitt sinn brellumaður Spielbergs) og eflaust betri handritshöfundar. Ég nefnilega ÞOLI EKKI hin svokölluðu Wibberley-hjón sem skrifuðu handritið að þessari mynd. Hollywood ætti að vera löngu búið að átta sig á því, að ef þú vilt klisjur, slöpp samtöl og ennþá verri húmor þá er málið að ráða þau! Allavega myndi ég ekki kalla The Shaggy Dog, I Spy, The 6th Day, National Treasure-myndirnar og nú G-Force eitthvað til að vera stoltur af.

Eins erfitt og það hefði verið að bjarga þessari mynd þá hefði það skipt miklu að taka burt alla þessa FM 957-tónlist, svo aðeins eitthvað sé nefnt. Hún var alveg óþolandi stundum og tók allt "fjörið" út úr sumum senum. Persónulega held ég að litlu krakkarnir vilji bara sjá sinn skerf af naggrísahasar, en það er einmitt annar feill þar sem að það er alls ekki það mikill hasar í myndinni. Hún byrjar með látum og endar með látum, en restin er bara voða mikið... blagh!

Bein endurgerð á The Rock - með naggrísum þ.e.a.s. - hefði verið skemmtilegri.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

16.07.2009

Cage vill "endurfæða" Ghost Rider

"Ég myndi vilja gera endurfæðingu" sagði Nicolas Cage um Ghost Rider 2. Já ég lýg því ekki, maðurinn bjó til orð á staðnum í viðtali við Mtv á dögunum. Hann var í viðtali vegna talsetningar á G-Force en spyrillinn spu...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn