Eftir glæsilegan, fjögurra áratuga feril er eiginlega orðið tilgangslaust að fjalla eitthvað ítarlega um nýjustu verkin hans Martins Scorsese. Jú jú, myndirnar hans eru ekkert alltaf jafngóðar en þær eru næstum því allar þess virði að sjá, og í rauninni ætti frekar að gagnrýna það sem misheppnast hjá honum því það gerist svo sannarlega ekki oft. Og í þau fáeinu skipti þar sem það gerist er nauðsynlegt að útskýra hvers vegna. Annars gerir Scorsese ekki bara góðar, vandaðar myndir, heldur er hann með gott auga fyrir því hvað virkar og hvað ekki. Þess vegna sér maður aldrei Scorsese-mynd sem er ekki frábærlega leikin, frábærlega kvikmynduð eða útlítandi. Myndirnar hans eru oftast misgóðar vegna þess að sögurnar sem hann notar eru misjafnlega vel skrifaðar og misathyglisverðar. En svo þegar kemur að skreytingunum, þá smellir hann fingrum sínum og raðast þá allt faglega saman á sinn stað.
Óhjákvæmilega er Hugo vönduð kvikmynd að nærri öllu leyti og fílingurinn er alveg sá rétti, sem er ótrúlegt (en samt ekki óvænt) vegna þess að Scorsese hefur aldrei gert neitt í þessum dúr áður. Þetta er fyrsta fjölskyldumyndin sem hann hefur gert og verður eiginlega að segjast að þrátt fyrir kunnuglegan (Dickens-legan tón), þá hefur varla neitt sést í líkingu við hana áður. Við erum að tala um 150 milljón dollara (þrívíddar) barnamynd sem er samt aðallega fyrir fullorðna og fjallar raunverulega mest um varðveislu kvikmynda og törfandi áhrifin sem þær geta haft á lífið og sálina. Undir ævintýralega yfirborðinu er þetta gígantískur fögnuður gagnvart kvikmyndagerðarmanninum Georges Méliès, sem er helsti frumkvöðull kvikmyndasögunnar hvað varðar tækni, tæknibrellur og almennt hvernig á að nota ímyndunaraflið.
Mætti kalla þetta óvenjulegt?
Já, svona smá. Og vissulega má bóka það að þessi mynd eigi sér heldur betur lokaðan aðdáendahóp. Það er alls ekki erfitt að kunna að meta hana eða jafnvel festast í henni, en þeir sem anda að sér kvikmyndum eins og súrefni og elska þær annaðhvort jafnmikið eða meira en sín eigin kynfæri, þeir eru miklu líklegri til að elska þessa mynd alveg í tætlur.
Ég er þakklátur fyrir að vera einn af þeim sem elskar kvikmyndir jafnmikið ef ekki meira heldur en sín eigin kynfæri, enda hef ég upplifað bæði erfiðar og huggulegar stundir með hvort tveggja. Það þýðir að Hugo er algjörlega myndin fyrir mig. Ekki nóg með að hún er stórkostleg kennsla í basískri kvikmyndasögu, heldur er hún líka vel skrifuð, útlitslega óaðfinnanleg, fyndin, dásamlega vel leikin og langt frá því að vera hjartalaus.
Tónlistin er yndisleg og heildarlúkkið er ekki aðeins gullfallegt heldur fullkomið (ef einhver segir að Robert Richardson sé ekki einn albesti tökumaður sem til er, þá fær hann blauta símaskrá í smettið!). Þrívíddin er líka sú albesta sem hefur sést síðan James Cameron gerði dýrustu bláu mynd sem gerð hefur verið. Scorsese sýnir líka að það þarf ekki alltaf að óttast þegar barnaleikarar eru settir í stór burðarhlutverk, því ef réttu krakkarnir eru rétt notaðir, þá geta þeir breyst í saklaust gull. Þannig er einmitt bíódýrið, hann Húgó sjálfur, sem er leikinn af sjarmerandi dreng með stórfurðulega nafnið Asa Butterfield. Svo við hans hlið er hin ávallt yndislega Chloe Moretz (í alvöru talað, þessi stelpa er 14 ára og strax ein af betri leikkonum þarna úti í dag).
Aðrir leikarar, hvort sem þeir eru í stórum eða smáum hlutverkum, slá ekki á feilnótu. Ben Kingsley sýnir sína bestu hlið, og fær mig til þess að fyrirgefa það að hann hafi gert sér það að leika í Uwe Boll-mynd. Svo er Sacha Baron Cohen eitthvað svo asnalega fyndinn og býr til skemmtilegan rugludall úr karakter sem er í rauninni helsta illmenni myndarinnar. Hundurinn sem fylgir honum er ekkert síðri, sem gerir þetta að þarnæstbesta hundi ársins 2011, á eftir Tobba í Tinna og Uggie í The Artist. Svo koma þrír ólíkir leikarar úr Harry Potter-myndunum sem fylla skemmtilega upp í aðrar aukapersónur ásamt Michael Stuhlbarg (úr A Serious Man), sem bræðir alveg á manni hjartað sem karakter sem er undarlega líkur Scorsese. Það sést líka úr bilaðri fjarlægð að þetta er persónulegasta myndin hans í langan, langan tíma. Hugsanlega frá upphafi.
Hugo er ekki alveg fullkomin og stundum mætti halda að Scorsese væri að reyna að vera Spielberg þegar kemur að týpíska „slapstick/maður-að-detta“ gríninu sem fylgir oft barnasögum. Myndin er samt fullkomið ástarbréf til upprunalegrar kvikmyndagerðar en á sama tíma er þetta períódumynd sem er gerð með tilliti til nútímalegustu 3D-tækninnar. Svona virðulegur kokteill af því gamla og nýja, ef svo má segja.
Kannski er þetta ykkar tebolli. Kannski ekki. Það væri samt geðbilun að taka ekki sénsinn og kanna það. En auðvitað segir það sig sjálft að þeir sem virða leikstjórann mest, þeir eru ekki að fara að sleppa þessum gimsteini.
(9/10)