Öskraði á fólk fyrir að virða ekki fjarlægðarmörk

Stórstjarnan Tom Cruise trylltist á tökustað yfir samstarfsmönnum sem fylgdu ekki starfsreglum vegna COVID-19. Atvikið átti sér stað í London við tökur á myndinni Mission: Impossible 7 og rataði upptaka af fúkyrðum leikarans í breska slúðurmiðilinn The Sun.

Hermt er að Cruise hafi séð tvo starfsmenn standa í minna en tveggja metra fjarlægð frá hvor öðrum og voru því ekki að virða fjarlægðartakmarkanir settsins. Segir að leikarinn hafi á­varpað um fimm­tíu starfs­menn og undirstrikað að hann sætti sig ekki við af­sökunar­beiðnir vegna málsins.

„Þið getið sagt þetta við fólkið sem er að missa heimili sín af því að iðnaðurinn okkar er lokaður,“ segir leikarinn og bætir svo við: „Það mun ekki færa þeim mat á borðið þeirra eða borga fyrir menntun þeirra.

Við erum að skapa þúsundir starfa. Ég vil ekki sjá þetta aftur! Aldrei! Ef þið fylgið þessu ekki, eruð þið rekin!“

Ávarp Cruise má heyra hér að neðan.