Bankarán í Los Angeles

Ný stikla hefur verið opinberuð úr glæpamyndinni Den of Thieves. Kvikmyndin verður frumsýnd hér á landi þann 26. janúar næstkomandi. Gerald Butler fer með aðalhlutverkið í myndinni en hann leikur sérsveitarmanninn Nick Flanagan sem eltir uppi þjófagengi í borginni. Leikararnir Pablo Schreiber, O’Shea Jackson, Jr. og rapparinn 50 Cent fara einnig með stór hlutverk í myndinni.

Myndin fjallar í grunninn um stórt bankarán í Federal Reserve Bank í Los Angeles en þar reyna bankaræningjar fyrir sér með rán í einum stærsta banka heims. Planið er að ræna risastórri upphæð áður en hún er tekin úr umferð af bankanum og komast þannig óséðir í burtu frá ráninu.

Christian Gudegast sá um leikstjórn myndarinnar en þetta er hans frumraun í leikstjórastólnum. Hann er hvað þekktastur fyrir handritskrif og hefur hann skrifað myndir á borð við London has Fallen og A Man Apart. Gudegast og Butler eru því kunnugir hvor öðrum því sá síðarnefndi fór með aðalhlutverkið í London has Fallen.

Stikluna má sjá í spilaranum hér að neðan.