Sudeikis hittir ekkju í Maine

Gamanleikarinn Jason Sudeikis, úr Saturday Night Live sjónvarpsþáttunum vinsælu, er rísandi stjarna í Hollywood og leikur nú í hverri gamanmyndinni þar á fætur annarri. Ekki er ósennilegt að hann fari brátt að dæmi Kristen Wiig, Tina Fey og fleiri gamanleikara sem aldir eru upp í þáttunum, klippi á naflastrenginn og yfirgefi Saturday Night Live og einbeiti sér að kvikmyndaferlinum.

Nú hefur Sudeikis samið um að leika í rómantísku gamanmyndinni Tumbledown ásamt leikkonunni Rose Byrne.

Leikstjóri myndarinnar verður Sean Mewshaw og handrit skrifar Desi Van Til. 

Myndin mun fjalla um persónu Sudeikis sem er rithöfundur í New York sem fer til Maine til að rannsaka dauða þjóðlagasöngvara.

Þar hittir hann ekkju söngvarans, sem leikin er af Byrne, og ástin kviknar á milli þeirra.

Aðrir leikarar eru m.a. Olivia Munn, Joe Manganiello, Blythe Danner, Michael McKean og Beau Bridges en tökur á myndinni hefjast í Vancouver í Kanada í október nk.

Auk þessarar myndar þá er Sudeikis með ýmislegt á teikniborðinu, myndir sem eru annað hvort í tökum –  eða verða frumsýndar á árinu. Þarna má nefna teiknimyndina Epic sem verður frumsýnd á þessu ári og vegamyndina We´re the Millers. Þá er framhald myndarinnar Horrible Bosses sömuleiðis í vinnslu.

Rose Byrne leikur í I Give It A Year, og tökur standa yfir á myndinni Townies eftir Nicholas Stoller.

Einnig leikur hún í The Internship og hrollvekjuframhaldinu Insidious: Chapter 2.