Þann 12. október nk. verður myndin Hreint hjarta frumsýnd í Bíó Paradís og SAMbíóunum á Selfossi. Hreint hjarta er heimildarmynd og fjallar um séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, mann sem er allt í senn prestur, áhugaleikari, sálusorgari og draugabani.
Grímur Hákonarson höfundur myndarinnar.
„Þessi mynd var frumsýnd á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg í maí sl. og vann þar áhorfendaverðlaunin. Ég setti hana svo í salt í sumar, en ætla að frumsýna hana í bíó núna 12. október. Fólk fer meira í bíó á haustin en á sumrin,“ segir Grímur Hákonarson höfundur myndarinnar í samtali við Kvikmyndir.is
Hann segir að fólki á Skjaldborgarhátíðinni hafi fundist myndin bæði fyndin og dramatísk, enda er alvarlegur undirtónn í henni.
Grímur ákvað að sýna hana í SAM bíóunum á Selfossi samtímis og hann sýnir hana í Bíó Paradís, enda er Kristinn sóknarprestur í Selfossprestakalli. Myndin verður líklega með þeim síðustu sem sýndar verða í bíóinu, þar sem því verður lokað fyrir fullt og allt 1. nóvember nk.
„Hún nær kannski að hleypa smá lífi í bíóið. Þetta verður ein af síðustu myndunum sem verður sýnd þarna, nema hún verði algjör hittari, og allt suðurlandið mæti. Það búa nú 20.000 manns á öllu suðurlandi,“ segir Grímur og hlær.
Spurður að því hver kveikjan hafi verið að myndinni segir Grímur að sér hafi þótt Kristinn vera áhugaverður karakter og hann hafi vitað að það væri auðvelt að vinna með honum, enda er hann vanur leikari og hefur leikið í 20 íslenskum bíómyndum, þ.á.m. Börnum náttúrunnar, svo dæmi sé tekið.
„Ég vissi að þarna væri hægt að blanda saman heimildamyndagerð og nýta um leið kosti Kristins sem leikara. Ég vissi að hann væri góður fyrir framan kvikmyndavélina, og hefði endalausa þolinmæði. Svo stóð hann í stappi við aðila innan kirkjunnar á þessu tímabili sem ég var að taka myndina, og það spilar inn í söguþráðinn.“
Grímur segist hafa fylgt Kristni eftir í eitt og hálft ár samanlagt. „Maður er ekki samfellt að fylgjast með honum, heldur er maður að taka upp svona tvisvar í mánuði á þessu eins og hálfs árs tímabili.
Húsblessun
Það gerðist ýmislegt í lífi Kristins á þessum tíma sem fléttast inn í myndina. „Bæði er hann mikill sálusorgari og svo fer hann líka í hús til að kveða niður drauga, sem ekki margir prestar taka að sér. Hann er vinsæll draugabani. Fólk hringir í hann ef það eru reimleikar. Ég sýni það í myndinni, ég held að slíkt hafi aldrei verið sýnt áður. Þetta kallast húsblessun. Hann fer með eitthvað ritual, er í hempu og labbar um húsið. Þetta er kannski ekki eins krassandi og í The Exorcist, en samt þónokkuð krassandi. Stundum þarf hann að fara tvisvar til þrisvar í sama húsið áður en draugurinn lætur sig hverfa. Það eru ekki allir prestar tilkippilegir í svona, en Kristinn er ekki eins og hinir, og fer oft aðeins á skjön við reglurnar. Hann passar ekki alltaf inn í formið.“
Fylgdist með fram í andlátið
Grímur segir að Kristinn sé einnig vinsæll sálusorgari og því hafi hann fengið að fylgjast með. Til dæmis hafi góður félagi hans verið með krabbamein og Grímur fékk að fylgjast með Kristni þegar hann var að hitta hann og búa hann undir andlátið. „Ég fékk að taka það allt upp, og síðan jarðarförina og fylgja þessu öllu eftir. Ég fylgi sögu hans eftir allt til grafarinnar.“
Grímur segir að með tímanum hafi hann náð að safna miklu efni í myndina, og handritið hafi hann svo að miklu leyti unnið í klippiherberginu. „Kjarninn í myndinni þróaðist með tímanum í að vera um mann sem er alltaf að hjálpa fólki að komast í gegnum erfiðleika, en er sjálfur um leið að glíma við sína eigin erfiðleika, meðal annars innan kirkjunnar, sem skýtur dálítið skökku við, ef maður lítur til þess kærleiksboðskapar sem kirkjan predikar,“ segir Grímur.
Grímur segir að auk þess að þjóna við Selfosskirkju þá þjónar Kristinn í Laugardælakirkju, Villingaholtskirkju og Hraungerðiskirkju.
Elti hann inn í sturtuna
Grímur segir aðspurður að Kristinn hafi hringt í sig ef eitthvað stórt var að gerast, og þeir hafi síðan alltaf verið í sambandi. „Við settumst oft niður þegar við hittumst og byrjuðum á að fá okkur kaffi. Svo fórum við yfir hvað hann var að gera. Hann sagði mér frá því fólki sem hann var með í sálgæslu á hverjum tíma, og við ræddum hvort við ættum að spyrja viðkomandi hvort hann eða hún hefði áhuga á að vera með í myndinni. Við prófuðum að taka upp ýmislegt sem svo er ekki með í myndinni. Við tókum líka upp fullt af messum, en aðeins ein eindaði í myndinni.“
Grímur segir að mikið af efni hafi verið tekið upp heima hjá Kristni og hann sé sýndur í dálítið öðru ljósi en prestar eru yfirleitt sýndir í. Meðal annars hafi hann fylgst með honum í sturtu. „Nei, ég fór ekki með honum í sturtuna, en stillti myndavélinni upp á góðum stað. Svo er ég að fylgjast með honum heima hjá honum þegar hann er bara í rólegheitum að horfa á RÚV eða eitthvað.“
Grímur segir að Kristinn sé mjög opinn náungi, enda er hann leikari, og þessvegna hafi hann verið til í að hleypa sér nær en aðrir hefðu kannski gert. „Hann skilur um hvað þetta snýst. Ef það var kannski flott veður úti, þá gat ég hringt í hann með skömmum fyrirvara, og við gátum farið og tekið upp í stórhríð.“
Grímur hefur gert myndir í gegnum tíðina sem margir kannast sjálfsagt við, bæði heimildarmyndir og leiknar myndir. Sumar þeirra eru orðnar hálfgerðar cult myndir, myndir eins og Varði fer á vertíð til dæmis.
„Ég lærði kvikmyndagerð í Prag í Tékklandi. Ég gerði þar mynd sem heitir Slavek the Shit. Svo gerði ég myndir eins og Varði fer á vertíð og Varði goes Europe. Þetta eru eiginlega orðnar cult myndir sem menn eru að kópera sín á milli og dreifa, og horfa á í partíum.
Þessi prestamynd er dálítið í ætt við þessar myndir, þar sem ég er að gera allt sjálfur núna eins og í þessum myndum, þ.e. skrifa, leikstýra, taka upp osfrv.“
Mynd um sprengingu væntanleg
Grímur segir að næstu verkefni sé heimildarmynd og síðan leikin mynd. „Ég mun á næsta ári sýna heimildarmynd sem heitir Hvellur í samstarfi við Hönnu Björk Valsdóttur og Sigurð Gísla hjá Ground Control Productions. Hún fjallar um bændur sem sprengdu stíflu með dýnamíti árið 1970. Þetta var stórmál á sínum tíma. Það átti að virkja Laxá í Þingeyjarsýslu og sökkva Laxárdal, og bændurnir tóku sig til um miðja nótt og sprengdu stíflu og komu í veg fyrir þessar virkjunarframkvæmdir. Þetta er eiginlega upphaf náttúruverndarbaráttu á Íslandi.
Svo er ég með kvikmyndahandrit sem er að fara í framleiðslu. Þetta er leikin mynd sem heitir Bræðrabönd. Ég hef verið að vinna í því handriti samhliða því að gera heimildarmyndirnar. Svo er maður alltaf með einhver langtímaproject í gangi. Maður er alltaf að leita að einhverjum sögum og prófa að tékka á hlutum. Stundum gengur eitthvað upp og stundum ekki. En varðandi Kristinn þá gekk það upp. Það eru ekki allir jafn hrifnir af því að láta kvikmyndagerðarmann fylgjast með sér daginn út og inn,“ sagði Grímur að lokum.