Uppfært: Jóker með stiklu og plakat

Leikstjórinn Todd Phillips deildi í gær nýju plakati fyrir næstu mynd sína, Joker, með Joaquin Phoenix í titilhlutverkinu, hlutverki Jókersins, öðru nafni Arthur Fleck. Einnig tilkynnti hann um að von væri á fyrstu kitlu úr myndinni í dag, miðvikudag, og nú er hún komin og má sjá hana neðst í fréttinni.

Aðrir helstu leikarar í myndinni eru Zazie Beetz (Deadpool 2), Bill Camp (Red Sparrow, Molly’s Game), Frances Conroy (American Horror Story, Castle Rock), Brett Cullen (42, Narcos), Glenn Fleshler (Billions, Barry), Douglas Hodge (Red Sparrow, Penny Dreadful), Marc Maron (Maron, GLOW), Josh Pais (Motherless Brooklyn, Going in Style) og Shea Whigham (First Man, Kong: Skull Island).

Joker segir frá hinum goðsagnakennda erkióvini leðublökumannsins, og er stök saga sem ekki hefur verið sögð áður á hvíta tjaldinu.

Phillips (The Hangover) leikstýrir myndinni eftir handriti sem hann skrifaði sjálfur í félagi við Scott Silver (The Fighter), byggt á persónum úr DC Comics teiknimyndaheiminum.

Joker kemur í bíó 4. október nk.