Transformers 4 ekki ólíkleg

Þetta kemur líklega engum á óvart, en í ljósi þess að Transformers: Dark of the Moon endaði í fjórða sæti yfir tekjuhæstu kvikmyndir allra tíma er framleiðandi bæði leikfanganna og kvikmyndanna, Hasbro, í viðræðum við Paramount Pictures um að gera fjórðu myndina. Einnig er verið að tala við Michael Bay og Steven Spielberg um að snúa aftur til seríunnar. Ekki er víst þó að allir snúi aftur, því Shia LaBeouf sagði við frumsýningu þriðju myndarinnar að hún yrði hans síðasta í seríunni, og einnig síðasta mynd Bays. Leikarinn Tyrese Gibson sagði þó síðar í viðtali að ef að Bay snýr ekki aftur, „er Spielberg alltaf til staðar.“ Einnig vilja framleiðendur myndarinnar sannfæra aðdáendur að serían verður ekki endurgerð og að það séu jafnvel líkur á nýrri trílogíu.

Forstjóri Hasbro, Brian Goldner, talaði í vikunni um það hversu vel fyrirtækinu gengi þar sem kvikmyndir byggðar á stærstu leikfangakeðjum þess eru allar í framleiðslu. T.d. er Battleship væntanleg á næsta ári og síðan má búast við kvikmyndum byggðum á Monopoly spilinu, Candyland, Risk og Clue. Hann bætti einnig við að Hasbro mun ekki fara að gera sínar eigin kvikmyndir, ólíkt Marvel.

Hvernig leggst síðan önnur Transformers mynd í fólk? Er þetta komið gott eða er alltaf tími fyrir heilalausar hasarmyndir?