The Revenant kom, sá og sigraði á Golden Globe-hátíðinni í nótt. Hún var valin besta dramatíska myndin, aðalleikarinn Leonardo DiCaprio var kjörinn besti leikarinn í dramamynd og Alejandro Inarritu vann fyrir bestu leikstjórn.
The Martian var valin besta myndin í flokki gaman- eða söngvamynda, auk þess sem aðalleikarinn Matt Damon hlaut Golden Globe sem besti leikarinn í sama flokki.
Brie Larson var valin besta leikkonan fyrir aðalhlutverk sitt í Room og Jennifer Lawrence var valin besta leikkonan í gaman- eða söngvamynd fyrir hlutverk sitt í Joy.
Á meðal mynda sem fengu engin verðlaun voru Carol, Mad Max: Fury Road, The Big Short og The Danish Girl.
Goðsögnin Ennio Morricone vann Golden Globe í þriðja sinn fyrir tónlist sína í The Hateful Eight og tók Quentin Tarantino á móti verðlaununum fyrir hans hönd.
Hér má sjá umfjöllun BBC um hátíðina.