Shutter Island vinsælust í Bandaríkjunum

Þeir sem
voru hræddir um að Shutter Island
myndi ekki standa undir væntingum geta andað rólega, því myndin sló algerlega í
gegn um nýliðna helgi í Bandaríkjunum og náði stærstu opnunarhelgi á nokkurri
mynd sem Leonardo DiCaprio og Martin Scorsese hafa gert saman.
Þessutan hefur hún fengið svona líka fína dóma, sem ætti aðeins að ýta undir
áframhaldandi aðsókn á myndina.

Fékk hún
heilar 40 milljónir dollara í kassann sem var meira en næstu tvær myndir á
listanum samanlagt. Valentine’s Day kom næst með um 17 milljónir, en aðsókn
minnkaði mikið milli helga á hana, enda Valentínusardagurinn liðinn. Avatar hífði sig upp um sæti milli vikna, var með 16 milljónir um helgina og er komin
í milljónþúsund skrilljónir samanlagt. Eða svona sirka.

Percy Jackson & the Olympians: The Lightning Thief hélt betur velli á milli helga en bæði Valentine’s Day og The Wolfman og sópaði 15 milljónum í kassann, á meðan The Wolfman misst nokkuð
dampinn og var með rétt tæpar 10 millur. Það var annars tíðindaminna á topp
10-listanum nú en um síðustu helgi, enda engin mynd í keppni við Shutter Island
um frumsýningargesti.

Næsta helgi
mun svo færa með sér tvær stórar myndir, löggugrínið Cop Out með Bruce Willis
og Tracy Morgan í leikstjórn Kevin Smith og spennutryllirinn The Crazies. Eru
vonir bundnar við að Cop Out muni berjast um toppsætið á meðan aðstandendur The
Crazies
munu væntanlega vera sáttir með allt yfir 10 milljónum. Hverju spáið þið?