Samuel L. Jackson þarf engan Óskar

Samuel L. Jackson segist ekki hafa neina þörf fyrir Óskarsverðlaunin því hann hafi átt góðan feril.

Leikarinn hefur einu sinni hlotið Óskarstilnefningu á löngum ferli sínum, fyrir aukahlutverk sem Jules Winnfield í Pulp Fiction sem kom út 1994. Hann fékk enga tilnefningu fyrir hlutverk sitt í Django Unchained. Þrátt fyrir engin Óskarsverðlaun til þessa telur hann að það dragi ekkert úr sterkri stöðu sinni.

„Ég hef átt frekar góðan feril. Ég held að þetta dragi ekkert úr stöðu minni í Hollywood á einn eða annan hátt. Ég hef gert marga ansi áhugaverða hluti og þetta hefur verið langur og gæfuríkur ferill,“ sagði hinn 64 ára Jackson við Contactmusic.

Hann var árið 2011 krýndur tekjuhæsti leikari sögunnar, þ.e. að þær myndir sem hann hefur leikið í hafa samanlagt þénað mest miðað við þær myndir sem aðrir hafa leikið í. Þar má nefna Star Wars-myndirnar og The Avengers. „Að vinna Óskarinn á ekki eftir að bæta neinu við miðasölumetið mitt,“ sagði hann.

Næsta verkefni Jackson er að endurtaka hlutverk sitt sem Nick Fury í framhaldi Captain America, Winter Soldier, sem kemur út á næsta ári.

Hann býst við að leika í fleiri Marvel-ofurhetjumyndum: „Ég á fjórar eða fimm myndir eftir af níu mynda samningnum mínum. Ég mun halda áfram að mæta í vinnuna.“