Brie og bleikur Jackson saman á ný

Captain Marvel leikkonan Brie Larson fetar nýjar slóðir í nýrri Netflix mynd, Unicorn Store, eða Einhyrningabúðin, í lauslegri íslenskri þýðingu, en myndin er sú fyrsta sem leikkonan leikstýrir. Með henni í myndinni er enginn annar en Samuel L. Jackson, en þau tvö leika einmitt einnig saman í Captain Marvel.

Auk þess að leikstýra þá leikur hin 29 ára gamla Óskarsverðlaunaleikkona aðalhlutverk myndarinnar, hlutverk Kit, stúlku sem er rekin úr listaskóla og neyðist til að flytja aftur heim til foreldra sinna. Hún fær tímabundna vinnu á almannatengslaskrifstofu, og hittir í kjölfarið persónuna sem Jackson leikur, hinn bleikklædda The Salesman. Sá kveðst geta selt henni nokkuð sem hún hefur alltaf þráð að eignast, einhyrning.

Þetta hljómar léttgeggjað, en miðað við stikluna sem var að koma út þá gæti þetta orðið hin skemmtilegasta mynd.

Kvikmyndin kemur á Netflix í apríl nk., eftir talsvert langan undirbúning, en myndin var upprunalega frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto haustið 2017.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: