Átti að leika í Pulp Fiction

Fyrir þá sem ekki vita, þá átti leikarinn John Travolta upphaflega ekki að leika leigumorðingjann Vincent Vega, heldur var það enginn annar en ofurtöffarinn Michael Madsen, sem er bíógestum að góðu kunnur í hlutverki Hr. Blonde í Reservoir Dogs, annarri Quentin Tarantino mynd.

Svalur með bjór.

En hversu nálægt var Madsen því að landa hlutverkinu í Pulp Fiction? Eins og fram kemur í bandaríska vefmiðlinum Entertainment Weekly þá var Madsen aðeins hársbreidd frá því. Í raun réttri þá á Tarantino að hafa skrifað hlutverkið upphaflega með Madsen í huga. En hvað kom upp á? Jú, Madsen var upptekinn og hafði nýlega verið búinn að skrifa undir samning um að leika í Lawrence Kasdan myndinni Wyatt Earp, sem frumsýnd var árið 1994.

“Ég var búinn að festa mig í Wyatt Earp,” segir Madsen í nýrri heimildarmynd um fyrstu átta kvikmyndir Tarantino, sem kallast QT8. The First Eight. “Og þá var það Quentin, sem vildi mig í Pulp Fiction. Og þeir voru báðir á eftir mér á sama tíma … en þetta æxlaðist þannig að þetta varð endurkoma John ( Travolta ). Hann hafði verið að gera kvikmyndir um talandi smábörn! Og skyndilega var hann orðinn Vincent Vega.

QT8: The First Eight verður frumsýnd í 800 bíóhúsum í Bandaríkjunum þann 21. október nk. Í myndinni er einnig rætt við Samuel L. Jackson, Jamie Foxx, Kurt Russell, Christoph Waltz, Jennifer Jason Lee, Lucy Liu, Diane Kruger og Zoe Bell, meðal annarra.