Ron Burgundy tilkynnir Anchorman 2

Will Ferrell kom fram í gervi fréttaþularins stórhuga Ron Burgundy í spjallþætti Conan O’Brien í gærkvöldi og tilkynnti að loksins hefði fengist grænt ljós á framleiðslu framhalds af gamanmyndinni Anchorman. Ásamt því að tilkynna þetta tók Burgundy eitt stykki þverflautusóló, og kom svo með heilbrigðan skammt móðgana eins og honum einum er lagið. En af hverju er ég að lýsa þessu, horfið bara á þetta hér:

Tilkynningin markar endi langs ferlis síðan að fyrsta Anchorman myndin kom út árið 2004. Þrátt fyrir vinsældir hennar var lengi vel talið að gerð framhalds yrði nánast ómöguleg, aðallega vegna aukinna vinsælda nánast allra meðleikaranna… þ.e. of dýrt myndi verða að fá Ferrell, Steve Carrell, Christina Applegate, Paul Rudd, David Koechner og alla hina inn í sama herbergi aftur.

Hinsvegar byrjuðu aðstandendur allir að tala um möguleikann á framhaldi í kring um 2008, og í apríl 2010 var handrit tilbúið, leikararnir búnir að samþykja það, og það eina sem þurfti var grænt ljós frá Paramount. Það fékkst ekki, jafnvel þó að allir hafi boðist til að skera niður launin sín eitthvað. Eftir það kom upp sú hugmynd að gefa skít í Paramount og setja Anchorman 2 upp sem Broadway söngleik (sem hefði reyndar verið geðveikt) en það var aldrei meira en skemmtileg og gjörsamlega óraunhæf hugdetta. Síðan heyrðist ekkert markvert þangað til núna!

Þar hafið þið það! Einhverjum sem finnst Anchorman framhald ekki vera góð hugmynd?

Ps: Burgundy var líka að fá sér Twitter síðu, fyrir þá sem nota svoleiðis. Þar eiga eflaust eftir að detta inn ófáir gullmolar.