Pacino segir halló við litlu vinina sína

Al Pacino mun næsta föstudag heimsækja Citi Wang-leikhúsið í Boston og spjalla við aðdáendur sína um kvikmyndaferilinn. Uppákoman nefnist Kvöld með Al Pacino.  al pacino

Pacino, 74 ára, er einn virtasti leikari Hollywood. Hann hefur leikið í The Godfather-þríleiknum, Scarface, Dog Day Afternoon, Scent of a Woman, Serpico og fleiri frægum myndum.

„Ég byrjaði á því að heimsækja háskóla og menntaskóla fyrir þrjátíu árum. Ég fór einn upp á svið með bækur og handrit, las upp og talaði um myndirnar mínar,“ sagði Pacino við Boston Herald.

„Mig langaði að auka tengsl mín við áhorfendur. Þetta var spennandi. Manni líður eins og maður sé að leika í leikriti því þarna þarf að leika af fingrum fram.“